Bannað að bera kross í Noregi

Höfuðstöðvar norska ríkisútvarpsins, NRK.
Höfuðstöðvar norska ríkisútvarpsins, NRK. Wikipedia

Siv Kristin Sællmann, sem starfar sem fréttalesari hjá norska ríkissjónvarpinu NRK, var bannað að bera hálsmen með krossi við fréttalesturinn eftir að áhorfendur kvörtuðu yfir því á dögunum. Hálsmenið hafði eiginmaður hennar gefið henni á ferðalagi til Dubai en krossinn á því er 1,4 sm að lengd samkvæmt frétt Thelocal.no.

„Það sem fer illa í mig er að fólk skuli bara hringja í yfirmann minn og segja honum hvernig ég ætti og ætti ekki að vera til fara,“ er haft eftir Sællmann. „Ég bar ekki krossinn í þeim tilgangi að ögra einhverjum. Ég er kristin en krossar sjást úti um allt. Það er hluti af daglegu lífi. Það er hluti af tísku. Það eru ekki bara kristnir sem bera þetta tákn. Ég átti ekki von á því að fólk myndi bregðast svona við þessu.“

Yfirmaður Sællmann, Anders Sårheim, segist aðeins hafa verið að fara eftir reglum NRK þegar hann bannaði henni að bera hálsmenið í útsendingum. Reglur kveði á um að fréttalesarar eigi að vera hlutlausir í klæðnaði og ekki bera nein tákn með trúarlegri eða pólitískri skírskotun.

Sællmann segist ekki hafa fengið að vita hverjir hafi kvartað yfir henni en hún telji þó að frekar hafi verið um að ræða fólk úr röðum húmanista en múslima. Hún segist alls ekki vilja lenda í útistöðum við yfirmenn sína og hafi orðið við fyrirmælum um að bera ekki hálsmenið í útsendingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka