Evrópusambandið færist nær því að verða að „pólitísku bandalagi“ (e. political union), skref fyrir skref. Þetta kemur fram á Twitter-síðu Josés Manuels Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í dag. Fyrsta skrefið sé að ljúka þeirri vinnu að koma á bankabandalagi innan sambandsins.
„Við færumst nær pólitísku bandalagi skref fyrir skref sem hefst með því að fullkomna bankabandalagið. Þýskaland hefur ljóslega mikilvægu hlutverki að gegna í þeim efnum,“ segir á Twitter-síðu hans.
Hugtakið „political union“ er allajafna skilgreint sem ríki sem samanstendur af fleiri minni ríkjum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem viðraðar eru slíkar hugmyndir af hálfu Barrosos en í stefnuræðu sinni í september á síðasta ári kallaði hann til að mynda eftir því að Evrópusambandið yrði þróað í að verða „sambandsríki þjóðríkja“ (e. federation of nation states). Þá líkti hann sambandinu við heimsveldi á blaðamannafundi árið 2007.
Viviane Reding, dómsmálastjóri Evrópusambandsins, skrifaði að sama skapi á Twitter-síðu sína 30. október síðastliðinn að stefna ætti að því að breyta sambandinu í Bandaríki Evrópu. „Ég tel að við eigum að stefna að Bandaríkjum Evrópu. Fyrirkomulagi sem dregur réttan lærdóm af mistökum fortíðarinnar.“