Börn Berlusconi eins og gyðingar í Helförinni

Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu.
Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Silvio Berlusconi heldur því þráfaldlega fram að ákærur og sakadómar á hendur honum um skattsvik og spillingu séu ofsóknir. Í væntanlegri viðtalsbók, sem kafli var birtur úr í dag, lýsir hann því yfir að börnum hans líði eins og gyðingum á tíma Hitlers.

„Börnin mín segja mér að þeim líði eins og fjölskyldum gyðinga í Þýskalandi hljóti að hafa liðið á einræðistíma Hitlers. Allur heimurinn er á móti okkur,“ er haft eftir Berlusconi í kaflanum, úr viðtalsbók sem blaðamaðurinn Bruno Vespa skrifar.

Berlusconi var fyrr á þessu ári dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir skattsvik. Um leið var honum bannað að gegna opinberu embætti næstu tvö árin. Fleiri mál eru rekin gegn honum fyrir dómstólum en Berlusconi heldur staðfastlega fram sakleysi sínu í þeim öllum og segir að vinstri sinnaðir dómarar séu staðráðnir í að bola honum út úr pólitík með öllum ráðum.

Þann 27. nóvember mun öldungadeilda ítalska þingsins greiða atkvæði um hvort Berlusconi verður sviptur sæti þar, í samræmi við lög sem banna að dæmdir glæpamenn sitji á þingi.

Berlusconi hefur óskað eftir því að taka dóminn út í samfélagsþjónustu fremur en fangavist, sem þýðir að hann gæti þurft að vinna t.d. á dvalarheimili aldraðra eða við að raða í hillur í matvöruverslunum.

Líklega verður það þó ekki fyrr en á næsta ári sem dóminum verður fullnægt og í viðtalinu kemur raunar fram að Berlusconi er enn vongóður um að forseti landsins, Giorgio Napolitano, muni náða hann.

Orðrómur hefur verið uppi um það á Ítalíu að Berlusconi kynni að flýja land til að sleppa undan refsingu. Í bókinni er hinsvegar haft eftir honum að það komi ekki til greina enda sé hann „100% ítalskur. Hér liggja rætur mínar. Þetta er mitt land, landi sem ég elska og þar er allt sem ég ann: Fjölskyldan, vinir mínir, viðskipti mín og heimili mitt. Ég get ekki hugsað mér að yfirgefa Ítalíu.“

Þetta stangast þó á við því viðhorfi sem fram kom hjá honum í viðtali árið 2011 þar sem hann lýsti Ítalíu sem „skítalandi“ sem hann hefði ógeð á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert