Ríða á vaðið með gínur í stærð 16

Debenhams á Oxford stræti.
Debenhams á Oxford stræti. AFP

Stærsta magasínverslun Bretlands, Debenhams, hefur frá og með deginum í dag tekið það skrefi að sýna fatnað á gínum í stærð 16. Gínur í stærð 10, sem hafa verið allsráðandi til þessa, verða áfram þeim við hlið. Debenhams segist með þessu vilja gefa raunsærri mynd af líkamsvexti kvenna.

Meðalfatastærð kvenna í Bretlandi hefur á síðasta áratug farið úr 12 í 16. Flestar verslanir nota þó enn gínur í stærð 10 til að sýna fötin. Topshop og Miss Selfridge, sem einnig eru á Íslandi, nota t.d. eingöngu gínur í stærð 10 en sumar verslanir eins og Dorothy Perkins og Wallis hafa stundum notað gínur í stærð 12.

Fyrstu gínurnar í stærð 16 verða afhjúpaðar í dag í stærstu verslun Debenhams, við Oxford stræti í London. Á næstu mánuðum munu þær smám saman verða sýnilegar í öllum Debenhams verslunum Bretlands.

Fyrr á þessu ári reið Debenhams einnig á vaðið með því að tilkynna að útliti þeirra fyrirsætna verði ekki breytt með s.k. airbrush tækni, og hvöttu um leið aðrar verslanir til að gera slíkt hið sama. 

Breska blaðið Telegraph hefur eftir Ed Watson, framkvæmdastjóra Debenhams, að þetta sé gert bæði af siðferðisástæðum og í viðskiptalegu skyni. „Við erum hætt að eyða þúsundum punda í að breyta útliti kvenna í tölvu og við sýnum kvenfyrirsætur í raunsæju ljósi.“

Ráðherra jafnréttismála í Bretlandi, Jo Swinson, fagnar skrefi Debenhams en hún hefur beitt sér fyrir því að stærri gínur séu notaðar í tískuverslunum. 

„Konur eru endalaust mataðar á staðalmyndum sem gefa til kynna að það sé bara ein leið til að líta vel út, það er að vera mjög grönn, ung og hvít á hörund. Það er útlit sem er þröngvað upp á allar konur, óháð líkamsvexti þeirra og aldri. Þetta er svo undirstrikað á öllum sviðum allt frá tískusýningapöllum til útstillinga í verslunum. Þess vegna styð ég þessa ákvörðun Debenhams.“

Swinson bendir á að átraskanir séu vaxandi vandamál í Bretlandi og hvetur sérstaklega verslanir sem markaðsetja sig gagnvart ungum konum og stúlkum til að sýna heilbrigðar fyrirmyndir.

Debenhams vill sýna konur af ólíkum stærðum, bæði stærð 10 …
Debenhams vill sýna konur af ólíkum stærðum, bæði stærð 10 og stærð 16. Mynd/Debenhams
Debenhams sýnir hér dæmi um hvernig líkamsvexti kvenfyrirsætu er breytt …
Debenhams sýnir hér dæmi um hvernig líkamsvexti kvenfyrirsætu er breytt í tölvu. Ljósmynd/Debenhams
Þessi mynd sýnir glögglega þær breytingar sem gerðar eru á …
Þessi mynd sýnir glögglega þær breytingar sem gerðar eru á fyrirsætum Ljósmynd/Debenhams
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert