Lögreglan í Noregi sætti gagnrýni í gær fyrir sein viðbrögð við morði á þremur mönnum í rútu sem var rænt í fyrradag. Lögreglan sagði að þrítugur hælisleitandi frá Suður-Súdan væri grunaður um verknaðinn.
Lögreglan sagði að maðurinn hefði farið einn síns liðs af miðstöð fyrir hælisleitendur í Årdal í Vestur-Noregi áður en hann fór í rútuna, vopnaður hnífi. Talið er að hann hafi banað bílstjóranum, sem var á sextugsaldri, og tveimur farþegum, nítján ára norskri konu og Svía á sextugsaldri, þegar rútan var á fjallvegi á leið til Óslóar.
„Við vitum ekki hvað manninum gekk til og erum að rannsaka það,“ sagði Åge Løseth, lögreglustjóri í Sogndal, á blaðamannafundi.
Talsmaður fyrirtækis, sem rekur miðstöðina fyrir hælisleitendur í Årdal, sagði að maðurinn hefði ekki sýnt nein merki um að hætta stafaði af honum áður en hann fór þaðan. „Þetta kom okkur algerlega í opna skjöldu,“ sagði Tor Brekke, aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Maðurinn kom til Noregs í apríl og hefur dvalið í miðstöðinni í Årdal frá 26. ágúst. Umsókn hans um hæli í Noregi var hafnað í júní vegna þess að hann hafði áður sótt um hæli á Spáni. Ákveðið var því í samræmi við Dyflinnarreglugerðina að senda manninn aftur til Spánar. Norskir fjölmiðlar segja að lögreglan hafi ætlað að taka manninn af miðstöðinni í Årdal í gær með það fyrir augum að flytja hann til Spánar. Að sögn norska ríkisútvarpsins telur lögreglan að einhver hafi varað manninn við þessum áformum.
Lögreglan gat ekki yfirheyrt manninn strax eftir að hann var handtekinn þar sem hann var sendur á sjúkrahús vegna stungusára. Slökkviliðsmenn og sjúkrabíll komu fyrstir á staðinn, á undan lögreglunni, og notuðu slökkvitæki til að yfirbuga manninn.
Arild Ingar Lægreid, sveitarstjóri í Årdal, sagði það mikið áhyggjuefni hversu seint lögreglumenn komu á staðinn.
Að sögn norskra fjölmiðla var hringt í sjúkraflutningamiðstöð til að skýra frá bílslysi á fjallveginum kl. 17.21 að staðartíma og sjúkrabílar voru sendir á staðinn. Slökkviliðið var síðan kallað út kl. 17.33 og lögreglan klukkan 17.35. Lögreglustjórinn Ronny Iden sagði á blaðamannafundi síðdegis í gær að það hefði tekið lögregluna klukkustund og 11 mínútur að fara á staðinn og viðurkenndi að það væri of langur tími.
Lögreglumennirnir á fyrsta bílnum ákváðu að fara ekki stystu leið á staðinn vegna þess að þeir héldu að hún væri lokuð vegna veðurs. Það reyndist ekki vera rétt. Leiðin sem þeir fóru var 37 kílómetrum lengri en styttri leiðin.