Karlmaður lést í Kaliforníu er hann stökk út úr þyrlu í um 230 metra hæð. Talið er að hann hafi skipulagt slysið og ætlað sér að taka eigið líf, segir í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar.
Gregory McFadden var farþegi í þyrlunni. Hann hafði leigt sér útsýnisferð meðfram strönd Orange County. Skelfdir sjónarvottar sáu er McDadden féll úr þyrlunni og ofan í sjóinn við ströndina við Newport. Strandverðir drógu hann svo úr sjónum og reyndu að lífga hann við en án árangurs.
Flugmaður þyrlunnar reyndi að koma í veg fyrir að maðurinn stykki út úr vélinni.
„Á meðan fluginu stóð bað hann um að þeir færu hærra og hærra og spurði hvort að hægt væri að fljúga alveg meðfram ströndinni,“ sagði faðir flugmannsins í samtali við KCAL9 sjónvarpsstöðina.
„Sonur minn var orðinn tortrygginn. Þegar þeir voru komnir að Balboa-bryggjunni hafði maðurinn tekið af sér sætisbeltið og byrjaði að opna hurðina.“ Hann segir son sinn hafa reynt að stöðva manninn, m.a. með því að grípa í hann. Hann reif skyrtu mannsins í átökunum. „Svo bara fór hann út um dyrnar.“