Litskrúðugur lífsnautnaseggur

Rob Ford, borgarstjóri Toronto, sést hér fyrir miðri mynd á …
Rob Ford, borgarstjóri Toronto, sést hér fyrir miðri mynd á hafnarboltaleik Toronto Blue Jays í heimaborginni Toronto. AFP

Borgarstjóri Toronto, hinn alræmdi Rob Ford, hefur verið töluvert í fréttunum að undanförnu þar sem hvert hneykslismálið rekið annað. Kastljós fjölmiðlanna beindist að Ford fyrir skemmstu þegar hann varð uppvís að því að hafa reykt krakk, sem hann hefur nú viðurkennt að hafa gert.

Óhætt er að segja að Ford, sem var kjörinn borgarstjóri Toronto árið 2010, sé litskrúðugur lífsnautnaseggur. Hann er þekktur fyrir að vera andsnúinn skattahækkunum en hann er eiginlega orðinn þekktari fyrir furðuleg uppátæki sín, en hann er þá gjarnan undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa.

Furðuleg hegðun og morðhótun

Nýjasta hneykslismálið sem hefur ratað í fréttirnar er myndband sem sýnir Ford, sem er greinilega undir áhrifum áfengis, haga sér furðulega auk þess sem hann hefur uppi morðhótanir. Ekki fylgir sögunni hverjum hann er að hóta í myndskeiðinu.

Þá viðurkenndi hann nýverið að hann hefði í ölvunarástandi reykt krakk einu sinni, en það gerði hann eftir að fjölmiðlar birtu mynd sem sýnir Ford við þessa iðju í heldur vafasömum félagsskap.

Frá því að hann komst til valda þá hefur Ford lent í mörgum vandræðalegum uppákomum, sem flest tengjast neyslu áfengis. Pólitískir andstæðingar hans segja að nú sé nóg komið að nú sé tímabært að Ford segi af sér. Það hyggst hann hins vegar ekki gera.

Sterk bræðrabönd

Rob Ford fæddist 28. maí árið 1969 í úthverfi Toronto, sem er stærsta borg Kanada og viðskipta- og fjármálamiðstöð landsins. Hann er afkomandi fremur auðugrar fjölskyldu og er yngstur fjögurra systkina, en hann á tvo eldri bræður og eina eldri systur.

Helsti stuðningsmaður Fords í borgarráði er Doug Ford, sem er elsti bróðir borgarstjórans, en þeir eiga báðir sæti í borgarráði Toronto. Kanadíski rithöfundurinn Margaret Atwood segir að bræðraböndin séu svo sterk að hún hefur kallað Doug Ford „Twin Ford mayor“.

Góðglaður popúlisti sem vildi gerast atvinnumaður í amerískum fótbolta

Rob Ford þótti mikill gleðimaður á sínum yngri árum og þótti honum mun skemmtilegra að fara út að skemmta sér með félögum sínum í stað þess að einbeita sér að náminu. 

Draumur hans á yngri árum var að gerast atvinnumaður í amerískum fótbolta. Það varð hins vegar ekkert úr þeim draumi, en hann tók hins vegar að sér að þjálfa framhaldsskólaliðið sitt í 10 ár auk þess sem hann starfaði fyrir prentfyrirtæki föður síns. 

Það leið ekki á löngu þar til pólitíska bakterían smitaði hann. Þegar hann var 28 ára gamall bauð hann sig fram til setu í borgarráði Toronto í fyrsta sinn. Þremur árum síðar náði hann kjöri og áratug síðar var hann orðinn borgarstjóri. 

Baráttuaðferðir Fords í stjórnmálum snúast um að segja það sem almennnigur vill heyra, sem gjarnan er kallað lýðskrum á manna máli. Hann er hægrimaður, líkt og faðir sinn, og á í nánum samskiptum við íhaldsmenn, bæði á landsvísu og í sínu nánasta umhverfi.

Hann hefur barist hart gegn skattahækkunum og nýtur Ford mikils stuðnings meðal kjósenda sem búa í úthverfum Toronto. Gárungarnir kalla stuðningsmenn hans í dag „Ford þjóðina“.

Kannast ekki við „Eftir einn ei aki neinn“

Lögreglan í borginni hvatti Ford til að ráða sér einkabílstjóra þegar hún hafði afskipti af honum í umferðinni, en hann hafði þá gerst sekur um að lesa vinnskjöl á sama tíma og hann var að aka bifreið. Lögreglan sagði að ráðning bílstjóra myndi tryggja öryggi hans í umferðinni ekki síður en annarra vegfaranda. 

„Ég held að það sé sóun á fé skattgreiðenda,“ sagði Ford. „Á hverjum degi fer milljón manns akandi inn í borgina til vinnu. Það keyrir sjálft. Ég er ekkert öðruvísi,“ sagði hann ennfremur.

Ford ekur enn um borgina á eigin bifreið - jafnvel eftir að hafa drukkið „nokkra bjóra“, líkt og gerðist þegar hann ók sjálfur á borgarhátíð sl. sumar.

Ráfandi í ölæði á göngum ráðhússins

Hann er þekktur fyrir að að drekka stíft og mikið og þar af leiðandi hefur verið grannt fylgst með hegðun hans í fjölmiðlum. Einu sinni komu starfsmenn að honum ráfandi um ganga ráðhússins með hálftóma áfengisflösku í annarri hendi. Þá hafði hann dottið í það í veislu sem var haldin í tengslum við hátíð Heilags Patreks á skrifstofu sinni. 

Ford hefur hins vegar vísað allri gagnrýni á bug. M.a. þegar hann var ákærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis og kannabisefna árið 1999 er hann var í fríi frá kosningabaráttu.

Lagði Hulk Hogan í sjómann

Borgarstjórinn er þekktur fyrir að vera hortugur í samskiptum og taka mikil bræðisköst. Hann er mikill maður vexti en með barnslegt andlit. Hann lagði fjölbragðaglímukappann Hulk Hogan eitt sinn í sjómann, er þekktur fyrir að öskra og taka í lurginn á ljósmyndurum sem og öðrum sem honum þykir ganga of langt. 

Talið er að eina stundin sem hann fái frið frá kastljósi fjölmiðlanna sé þegar hann fer í veiðiferðir í heimaríkinu Ontario. 

Sækist eftir endurkjöri

Ljóst er að játning Fords á því að hafa reykt krakk er stærsti bletturinn á doppóttum jakkafötum hans. Ford segist aftur á móti trúa á endurlausn.

Hann nýtur enn vinsælda og þá hefur hann heitið að vinna að því að sýna borgarbúum fram á að hann sé traustsins verður. Á næsta ári hyggst hann sækjast eftir endurkjöri í þágu skattgreiðanda í Toronto.

Ford á góðri stund.
Ford á góðri stund.
Frá Toronto.
Frá Toronto. mbl.is/Kristján G. Arngrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert