Bók Malölu bönnuð

Bókin þykir stríða gegn pakistönskum og íslömskum gildum og hefur …
Bókin þykir stríða gegn pakistönskum og íslömskum gildum og hefur verið bönnuð. AAMIR QURESHI

Búið er að banna bók mannréttindahetjunnar Malölu Yousafzai innan sambands einkaskóla í Pakistan. Skólar þar í landi geta því ekki keypt eintök af bókinni en í henni þykir deilt á Pakistan og íslam.

„Já, við höfum bannað bók Malölu því hún stríðir gegn hugmyndafræði þjóðarinnar og íslömskum gildum,“ segir Kashif Mirza, stjórnandi samtaka einkaskóla Pakistans (All Pakistan Private Schools Federation), í viðtali við AFP.

„Við erum ekki á móti Malölu. Hún er dóttir okkar og hún sjálf er á báðum áttum varðandi bókina. Faðir hennar hefur til að mynda beðið útgefandann að fjarlægja setningar sem snúa að Salman Rushdie,“ segir Mirza en hann segir að um 152 þúsund einkaskólar um allt Pakistan hafa staðið þétt við hlið Malölu eftir að hún hafi orðið fyrir skotárás af hendi talibana á síðasta ári. Hins vegar hafi skoðanir hennar í bókinni ekki þótt ásættanlegar.

„Enginn skóli vill kaupa þessar bækur,“ segir Mizra en hann hafnar því alfarið að samtökin hafi verið beitt einhverjum þrýstingi til þess að banna bókina. Vitað er um dæmi þess að talibanar hafi hótað árásum á þær verslanir sem hefðu hana til sölu.

Bók Malölu heitir Ég er Malala (I am Malala) og fjallar um líf hennar undir ógnarstjórn talibana og ákvörðun fjölskyldu hennar að flýja. Því er til dæmis lýst hvernig þeir bönnuðu sjónvarp, dans og tónlist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert