Ríkisstjórn Norður-Kóreu eru sögð hafa látið taka 80 manns af lífi fyrir að horfa á suðurkóreska sjónvarpsþætti. Aftakan var opinber.
Í frétt Sky-fréttastofunnar segir að enn hafi þessar fréttir ekki fengist staðfestar en talið er að um sé að ræða fjölmennustu aftöku í stjórnartíð forsetans Kim Jong-un. Suðurkóreska dagblaðið JoongAng Ilbo Daily segir að aftökurnar hafi farið fram í sjö borgum fyrr í þessum mánuði.
Í borginni Wonsan voru átta teknir af lífi. Þeir voru með poka á höfði og bundnir við staura. Aftakan er sögð hafa farið fram á íþróttaleikvangi. Mennirnir voru skotnir til bana af hermönnum.
Í frétt suðurkóreska dagblaðsins er haft eftir heimildarmanni að yfirvöld hafi þvingað um 10 þúsund manns, þeirra á meðal börn, til að horfa á aftökuna.
„Ég heyrði frá íbúum að þeir hefðu horft á í skelfingu er fólkið var tætt í sundur með kúlnahríð,“ segir heimildarmaður blaðsins.
Fólkið er sagt hafa verið tekið af lífi fyrir að horfa á suðurkóreska sjónvarpsþætti, stunda vændi eða að hafa haft biblíu í fórum sínum.