Dómsmálaráðherra Frakklands, Christiane Taubira, hefur þurft að þola ýmislegt í starfi, meðal annars kynþáttaníð. Árásir á hendur henni tóku nýja stefnu í vikunni þegar mynd birtist af henni á forsíðu vikuritsins Minute og henni þar líkt við apa. Litlu virðist skipta hjá ritstjórn og eigendum blaðsins að slíkt níð er bannað með lögum. Því á forsíðunni er birt mynd að henni með fyrirsögninni „Taubira fær bananann sinn aftur“ og „Slæg eins og api“.
Með þessu þykir sem vikuritið, sem er skilgreint sem öfga hægri ádeilurit af öðrum fjölmiðlum, taki afstöðu með þeim sem undanfarið hafa opinberlega líkt ráðherranum við apa.
Taubira varaði við því í síðustu viku að félagsleg gildi sem hingað til hafi gilt í Frakklandi séu í hættu og kynþáttahatri sé að vaxa fiskur um hrygg. Mikil reiði ríkir meðal stjórnmálamanna frá helstu stjórnmálaflokkum landsins og krefjast ýmsir þeir þess að ritstjóri og útgefandi Minute verði saksóttir fyrir kynþáttaníð.
Forsætisráðherra Frakklands, Jean-Marc Ayrault, hefur lagt fram formlega kvörtun til saksóknaraembættisins í París.
En það vekur á móti spurningar um stöðu tjáningarfrelsisins í Frakklandi og ólíklegt sé að hægt verði að innkalla þau 40 þúsund eintök sem hafa verið prentuð og dreift af vikuritinu.
Talsmaður dreifingarfyrirtækisins, Presstalis, segir að eina leiðin til að stöðva dreifingu blaðsins sé að skipun dómstóls. Engin slík skipun hafi komið.
Hluti þeirra sem eru langt til hægri í frönskum stjórnmálum er illa við Taubira, ekki bara vegna litarháttar hennar heldur einnig að það var hún sem bar ábyrgð á því að hjónabönd samkynhneigðra voru lögleidd í Frakklandi.
Börnin sungu „Api éttu bananann þinn“
Í lok síðasta mánaðar var tekið upp myndskeið af hópi barna sem mættu í mótmæli sem beindust gegn Taubira og hjónaböndum samkynhneigðra. Börnin syngja: „singe, manger votre banane“, eða „api éttu bananann þinn“.
Um svipað leyti var frambjóðandi Front National (FN) rekinn úr flokk sínum eftir að hafa ritað á Facebook síðu sína að hann vildi frekar sjá ráðherrann sveifla sér í trjánum heldur en í ríkisstjórn.
Yamina Benguigui, sem fer með málefni Frakka erlendis í ríkistjórninni, segir að árásirnar á Taubiru séu ekkert annað en kynþáttaníð í anda Ku Klux Klan. Hún segir að sig hefði aldrei órað fyrir því að eiga eftir að upplifa slíkt níð.