Malta selur ríkisborgararétt

Wikipedia

Þing Möltu samþykkti í gær áætlun sem heimilar stjórnvöldum að selja ríkisborgararétt til einstaklinga með ríkisfang utan Evrópusambandsins fyrir 650 þúsund evrur stykkið eða sem nemur rúmlega 107 milljónum króna.

Haft er eftir Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, í frétt írska dagblaðsins Irish Independent að tilgangurinn með áætluninni sé að afla ríkissjóði eyríkisins tekjur og laða að fjársterka aðila sem kynnu að vilja fjárfesta innan þess. Búist er við að fyrsta árið afli áætlunin ríkissjóði um 30 milljónum evra og er þá miðað við að um 45 manns fái ríkisborgararétt keyptan. Þá er gert ráð fyrir um 200-300 umsóknum árlega.

Með ríkisborgararéttinum fá viðkomandi einstaklingar atvinnuleyfi og dvalarleyfi í öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Það á um leið við um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem telur öll ríki sambandsins auk EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert