Tugir handteknir og pyntaðir af Hamas

Khaled Meshaal. leiðtogi Hamas-samtakanna.
Khaled Meshaal. leiðtogi Hamas-samtakanna. AFP

Hamas-samtökin hafa handtekið og pyntað tugi Palestínumanna á Gasaströndinni undanfarnar vikur á póitískum forsendum. Þetta fullyrtu palestínsku mannréttindasamtökin Palestinian Centre for Human Rights samkvæmt frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að mannréttindasamtökin hafi fordæmt „handtökuherferð“ sem Hamas hafi staðið í gegn tugum einstaklinga og þar á meðal meðlimum Fatah-hreyfingarinnar og börnum þeirra. Mannréttindasamtökin segja að handtökurnar hafi færst í aukana á sama tíma og kallað hefur verið eftir mótmælum gegn Hamas í tilefni þess að níu ár eru frá því að Yasser Arafat, fyrrverandi leiðtogi Fatah-hreyfingarinnar, lést.

Ennfremur segir að fólk sem verið hafi í haldi Hamas hafi sagt mannréttindasamtökunum að það hafi meðal annars orðið fyrir barsmíðum á hendur og fætur með barefli, verið kýlt um allan líkamann, hlekkjað og neytt til þess að standa tímunum saman. Aðrir hafi verið neyddir til þess að undirrita eið þess efnis að þeir færu að lögum, ætluðu ekki að taka þátt í mótmælum, ekki taka þátt í átökum við lögreglu og æsa fólk ekki upp gegn stjórnvöldum en Hamas fer með stjórn Gasastrandarinnar.

Hamas bannaði minningarathafnir um Arafat síðastliðinn mánudag og sakaði Fatah-hreyfinguna, sem fer með stjórn Vesturbakkans, um að skipuleggja hátíð sem væri aðeins fyrir meðlimi hennar. Fjöldi lögreglumanna hefur verið á ferli og fréttaritari AFP var tekinn höndum í skamma stund fyrir þá sök að ræða við íbúa svæðisins.

Talsmenn Hamas hafa ekki viljað tjá sig efnilega um ásakanir mannréttindasamtakanna en einn þeirra, Fathi Hammad, svaraði því til að það væri „ekkert pláss fyrir landráðamenn, hræsnara eða uppreisnarmenn á okkar landi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert