Tveir fangar voru teknir af lífi í Bandaríkjunum í nótt. Annar þeirra í Flórída og hinn í Texas. Aftökur eru hvergi í Bandaríkjunum jafn margar og í þessum tveimur ríkjum í ár.
Í Flórída var Darius Kimbrough, 40 ára, tekinn af lífi með lyfjagjöf eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði lokabeiðni hans um að vera ekki tekinn af lífi.
Hann var dæmdur til dauða árið 1991 fyrir að hafa nauðgað og myrt 28 ára gamla konu í íbúð hennar í Orange sýslu. Kimbrough var tekinn af lífi með midazolam en þetta er í annað skiptið sem það lyf er notað við aftöku í Flórída.
Kimbrough fékk tvær sneiðar af pizzu, steiktan grænan tómata, kjúkling, ís og ávexti að borða en hann valdi sjálfur síðustu máltíðina.
Í Texas var Jamie McCoskey, 49 ára, tekinn af lífi í bænum Huntsville en hann var sprautaður með pentobarbital.
McCoskey, sem áfrýjaði ekki dauðadómnum, var dæmdur árið 1991 fyrir að hafa rænt pari í Houston. Hann myrti manninn, sem var tvítugur og stúlkunni var nauðgað.
Alls hafa 34 verið teknir af lífi í Bandaríkjunum í ár, Kimbrough var sá sjöundi í Flórída en svo margir hafa ekki verið teknir af lífi í ríkinu síðan 1984 er aftökurnar voru átta talsins. McCoskey var sá fimmtándi sem er tekinn af lífi í Texas það sem af er ári. Stefnt er að næstu aftökum í ríkjunum tveimur þann 3. desember.