Hópur uppreisnarmanna í Sýrlandi sem hefur tengsl við al-Qaeda, hefur viðurkennt að hafa afhöfðað mann fyrir mistök. Töldu þeir manninn berjast með sýrlenska hernum og tóku hann því af lífi.
Á myndskeiði sem fór á netið á miðvikudag sjást tveir menn halda á höfði manns fyrir framan mikinn mannfjölda í borginni Aleppo í Sýrlandi.
Þeir sögðu að maðurinn væri sjíti frá Írak og hefði barist með stjórnarhernum fyrir Bashar al-Assad forseta.
„Nokkrum mínútum eftir að myndskeiðið fór á netið kom í ljós að maðurinn var Mohammed Marroush og hefði barist ásamt uppreisnarmönnum,“ segir talsmaður sýrlenskra mannréttindasamtaka. Mennirnir hefðu því drepið félaga sinn og bandamann.
Uppreisnarmennirnir viðurkenndu síðar að hafa drepið manninn fyrir mistök og sögðust hafa handtekið þann sem hefði látið þeim rangar upplýsingar í té.
Marroush hafði særst í bardaga austur af Aleppo. Hann var fluttur á sjúkrahús og gefin sterk verkjalyf. Í lyfjavímu endurtók hann nöfnin Ali og Hussein og var dregin sú ályktun að hann ætti við tvo þekkta sjíta múslíma.
Því var dregin sú ályktun að hann væri sjíti og bandamaður Sýrlandsforseta og var maðurinn því hálshöggvinn.