Þær eru báðar dætur hershöfðingja. Hjóluðu saman þegar þær voru börn. En svo var valdarán og líf þeirra gjörbreyttist. Fjörutíu árum síðar eru Michelle Bachelet og Evelyn Matthei keppinautar í forsetakosningunum í Síle sem fram fara á morgun.
Fjölskyldur þeirra voru nágrannar á Cerro Moreno herflugvellinum fyrir mörgum áratugum. Þar léku þær sér stundum saman, þá fjögurra og sex ára gamlar.
Feður þeirra voru báðir hershöfðingjar og voru nánir. Þeir höfðu sömu áhugamál, elskuðu tónlist og bækur.
En allt breyttist 11. september árið 1973 er Salvador Allende forseta var steypt af stóli í valdaráni. Við valdataumunum tók einræðisherrann Augusto Pinochet.
Faðir Bachelet, Alberto, var stuðningsmaður Allenda og var handtekinn í valdaráninu og að lokum pyntaður til dauða.
Fernando Matthei studdi hins vegar Pinochet og varð yfirmaður herskólans þar sem nágranni hans og vinur var í haldi og pyntaður.
Núna, mörgum árum síðar, mun sósíalistinn Bachelet keppa við æskuvinkonuna, hægri manninn Evelyn Matthei. Matthei er eini frambjóðandinn sem skilgreinir sig á hægri væng stjórnmálanna en fjölmargir hafa dregið framboð sitt til baka á undanförnum vikum og mánuðum.
Blaðamaðurinn Rocio Montes segir kosningabaráttuna og framboð þessara tveggja fyrrum vinkvenna, hafa verið dramatíska. „Einhver sagði að helsti leyndardómur stjórnmálanna í Síle væri hvort þetta væri einskær tilviljun eða afkvæmi sögu landsins,“ segir hann um framboð þeirra tveggja.
Þó að þær hafi ekki verið í sama bekk ólust þær upp sem nágrannar á herstöðinni og lærðu þar aga og skyldurækni. Þær voru báðar mjög námsfúsar.
Bachelet er 62 ára og er talin hafa góða möguleika á því að sigra í forsetakosningunum. Hún tók dauða föður síns árið 1974 mjög nærri sér. Dánarorsök hans var hjartaáfall en hann hafði verið pyntaður mánuðum saman.
Bachelet hefur sjálf verið í haldi og þurft að þola pyntingar. Hún hefur gríðarlegan metnað í stjórnmálum og var kjörin forseti Síle á árunum 2006-2010 eftir að hafa verið í útlegð árum saman.
Hún er læknir að mennt og hefur m.a. farið fyrir UN Women, stofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem leggur áherslu á kynjajafnrétti.
Keppinauturinn Matthei er sextug. Hún var stödd í London er Pinchet rændi völdum en fylgdi svo föður sínum næstu árin.
Hún lærði píanóleik en beindi svo sjónum sínum síðar að efnahagsmálum í heimalandinu. Á síðustu stjórnarárum einræðisherrans Pinochets, var hún virk í starfi stjórnmálaflokks sem studdi ríkisstjórn hans. Í einræðistíð Pinochets týndu að minnsta kosti 3.200 manns lífi í átökum í landinu.
Árið 1993 sóttist hún eftir forsetastólnum en náði ekki kjöri. Hún flæktist síðar í hlerunarmál sem skók æðstu stjórnmálamenn landsins og tengdist m.a. núverandi forseta Síle, Sebastian Pinera. Slíkt féll ekki vel í kramið meðal kjósenda og hún dró sig í hlé frá stjórnmálum um hríð.
Matthei varð síðar þingmaður og árið 2011 gerði Pinera hana að vinnumálaráðherra.
Í kosningabaráttunni nú hafa Þær Matthei og Bachelet forðast að ræða sína sameiginlegu og sársaukafullu fortíð. Barchelet virðist ekki hafa nokkurn áhuga á hefndum.
Fjölskylda hennar líkt og yfirvöld í Síle, líta ekki svo á að Fernando Matthei hafi borið beina ábyrgð á dauða Alberto Bachelet þó að hann hafi verið pyntaður í herskólanum sem Matthei fór fyrir.
Móðir Bachelet hefur meira að segja komið opinberlega honum til varnar. „Hún ver hann því hún er sannfærð um að hann beri ekki ábyrgð á dauða eiginmanns hennar,“ segir rithöfundurinn Nancy Castillo sem hefur m.a. skrifað bók um málið.
Árið 1979 hafði Matthei samband við ekkjuna og dóttur hennar og hvatti þær til að snúa aftur til Síle en þá höfðu þær verið í útlegð í fimm ár.
Hann hefur játað að sjá eftir því að hafa ekki rétt vini sínum hjálparhönd á sínum tíma sem hefði getað komið í veg fyrir dauða hans.
„Varkárni varð hugrekkinu yfirsterkari,“ hefur hann sagt.