Breskir læknar og hjúkrunarfræðingar gætu nú átt yfir höfði sér fangelsisdóm, verði þeir fundir sekir um að vanrækja sjúklinga sína. Yfirvöld í Bretlandi tilkynntu þetta í dag, en þessi ákvörðun kemur í kjölfar mála þar sem sjúklingar hafa látið lífið vegna lélegrar umönnunar. Talið er að allt að 1.200 manns hafi látið lífið af þessum sökum á Stafford spítalanum á árunum 2005 til 2009.
Eru sjúklingar sagðir hafa verið skildir eftir svangir og óhreinir í rúmum sínum og sumir hafi verið svo þyrstir að þeir drukku vatnið úr blómavösum í herbergjum sínum. David Cameron, forsætisráðherra landsins, sagði að heilbrigðisstarfsmenn sem færu illa með eða misþyrmdu sjúklingum þyrftu að taka afleiðingum gjörða sinna. Frekari útlistun á þessari ákvörðun breskra yfirvalda verða tilkynntar á næstunni.