Byssumaðurinn gengur enn laus

Francois Molins, saksóknari í París, sýndi ljósmyndir sem voru teknar …
Francois Molins, saksóknari í París, sýndi ljósmyndir sem voru teknar af byssumanninum í borginni á blaðamannafundi sem lögreglan boðaði til í dag. AFP

Fjölmennt lið lögreglumanna í París, höfuðborg Frakklands, leitar nú að manni sem gekk vopnaður inn á skrifstofur dagblaðsins Liberation í dag og skaut þar starfsmann. Þá hóf hann skothríð fyrir utan höfuðstöðvar bankans Societe Generale.

Tuttugu og sjö ára gamall ljósmyndari særðist alvarlega í skotárásinni á dagblaðinu í dag, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins. Þar kemur einnig fram, að byssumaðurinn hafi neytt ökumann til að aka sér að Champs-Élysées-breiðgötunni. Þar yfirgaf byssumaðurinn bifreiðina og leyfði hann ökumanninum að fara. 

Lögreglan segir að sami maður sé grunaður um að hafa farið inn á skrifstofur fréttastöðvarinnar BFMTV í París sl. á föstudag þar sem hann hóf einnig skothríð.

Lögreglumenn hafa í allan dag staðið vakt fyrir utan skrifstofur helstu fréttastofur borgarinnar.

Boðað var til blaðamannafundar í dag þar sem lögreglan birti tvær ljósmyndir af byssumanninn. Önnur þeirra sýndi hann úti á götu og aðra ljósmynd sem eftirlitsmyndavélar tóku af honum inni á skrifstofum BFMTV-stöðvarinnar. 

Francois Molins, saksóknari í París, segir að einn byssumaður beri ábyrgð á þremur árásum í borginni og mannráninu. Hann segir að ekki sé búið að bera kennsl á manninn og enn sé óljóst hvað honum gangi til. 

Hann er sagður vera á bilinu 35 til 35 ára gamall, á bilinu 170 til 180 sm á hæð og krúnurakaður.

Á föstudagsmorgun gekk byssumaðurinn inn á gestamóttöku BFMTV. Þar hóf hann skothríð og linnti ekki látum þar til skothylkið var tómt.

„Næst mun ég hæfa þig,“ sagði maðurinn við fréttastjóra sem hann hafði í hótunum við. 

Hér er önnur myndanna sem hefur verið birt opinberlega af …
Hér er önnur myndanna sem hefur verið birt opinberlega af manninum. Hann sést hér inni á skrifstofum BFMTV sl. föstudag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert