Dætur Dicks Cheneys, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, rífast nú opinberlega vegna ummæla sem önnur þeirra, Liz Cheney, lét falla um rétt systur sinnar til að giftast eiginkonu sinni. Liz sækist nú eftir tilnefningu repúblikana til öldungadeildar bandaríkjaþings í Wyoming
Á viðtali á Fox sjónvarpsstöðinni í gær sagði Liz Cheney að hún tryði á „hefðbundna skilgreiningu á hjónabandi“ og átti þar við að hjónaband ætti að vera milli karls og konu.
Hún sagðist elska Mary systur sína og fjölskyldu hennar „mjög mikið“ en „við erum ósammála í þessu máli.“
Ummælin féllu í grýttan jarðveg hjá mágkonu hennar, Heather Poe, sem skaut föstum skotum á Facebook.
„Liz hefur verið gestur á okkar heimili, hefur eytt tíma með börnum okkar á hátíðarstundum og þegar ég og Mary giftum okkur 2012 - þá hikaði hún ekki við að segja hversu hamingjusöm hún væri fyrir okkar hönd. Að heyra hana núna segja að hún styðji ekki rétt okkar til að giftast er móðgandi, svo ekki sé meira sagt.“
Liz svaraði því til að ákvörðunin ætti að liggja hjá hverju ríki fyrir sig. Poe skrifaði þá: „Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvernig Liz myndi líða ef hún flytti á milli ríkja og kæmist að því að fjölskylda hennar nyti réttinda í einu en ekki öðru. Ég hélt alltaf að frelsi þýddi frelsi fyrir ALLA.“
Mary Cheney svaraði einnig fyrir sig á Facebook og skrifaði: „Liz, þetta er ekki bara mál sem við erum ósammála um, þú hefur einfaldlega rangt fyrir þér.“