Aftöku frestað á síðustu stundu

Joseph Paul Franklin
Joseph Paul Franklin

Bandarískur dómari frestaði aftöku fjöldamorðingjans Josephs Pauls Franklins á síðustu stundu í gærkvöldi þar sem efasemdir eru um lyfið sem nota á við aftökuna.

Taka átti Joseph Paul Franklin af lífi skömmu eftir miðnætti í nótt en héraðsdómari í Missouri, Nanette Laughrey, frestaði aftökunni tímabundið þar sem hætta væri á að  lyfið, pentobarbital, ylli ónauðsynlegum kvölum við andlátið. Slíkt væri brot á áttundu grein stjórnarskrárinnar, að sögn Laughrey.

Samkvæmt frétt CNN hafði annar héraðsdómari, Carol Jackson, einnig frestað aftökunni á grundvelli andlegrar heilsu Franklins.

Von er á niðurstöðu áfrýjunardómstóls innan nokkurra daga um hvort af aftökunni verður eður ei.

Líkt og fram kom á mbl.is í gær neitaði ríkisstjóri Missouri að þyrma lífi Franklins en hann myrti Gerald Gordon úr launsátri í samkunduhúsi gyðinga í úthverfi St. Louis árið 1977. Alls myrti Franklin tuttugu manns en var dæmdur fyrir átta morð. Hann var hins vegar einungis dæmdur til dauða fyrir morðið á Gordon. Franklin er kynþáttahatari og myrti fólk sem var svart á hörund eða gyðingar víðs vegar um Bandaríkin á tímabilinu 1977 til 1980.

Lífi fjöldamorðingjans verður ekki þyrmt

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert