Frönsk yfirvöld eru búin að nafngreina manninn sem lögreglan handtók í kvöld í tengslum við árásir sem áttu sér stað í París, höfuðborg Frakklands, á föstudag og mánudag.
Maðurinn heitir Abdelhakim Dekhar og árið 1998 var hann dæmdur í fangelsi í sakamáli sem vakti mikla athygli í landinu, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.
Fram hefur komið, að maðurinn var handtekinn um kl. 18 að íslenskum tíma í kvöld í kjölfar ábendingar sem barst lögreglunni. Hann var þá staddur í bifreið í bílakjallara í Bois-Colombes, sem er norðvestur af París.
Hann hafði m.a. í hótunum við starfsmenn sjónvarpsstöðvar á föstudag og á mánudag gekk hann inn á skrifstofur dagblaðs þar sem hann hóf skothríð. Sama dag hóf hann einnig skotárás við höfuðstöðvar banka í borginni.
Ekki hefur verið hægt að yfirheyra manninn. Að sögn saksóknara hafði maðurinn mögulega tekið inn einhver lyf en það var ekki hægt að heyra hvað hann sagði.
Sumir fjölmiðlar hafa velt upp þeim möguleika að maðurinn hafi mögulega reynt að taka eigið líf.
Mörg hundruð lögreglumenn tóku þátt í umfangsmiklum lögregluaðgerðum í kjölfar árásanna á máudag. Eftirlit við fjölmiðlafyrirtæki í borginni var hert. Þá bárust um það bil 700 ábendingar eftir að lögreglan bað almenning um að hafa samband hefði hann upplýsingar um málið.