Ný gögn birt um Jack Ruby

Jack Ruby skaut Lee Harvey Oswald þegar verið var að …
Jack Ruby skaut Lee Harvey Oswald þegar verið var að leiða hann út úr höfuðstöðvum lögreglunnar í Dallas. Morðið átti sér stað tveimur dögum eftir morðið á Kennedy. AP/Dallas Times-Herald, Bob Jackson

Ný gögn hafa verið gerð opinber um Jack Ruby, manninn sem drap Lee Harvey Oswald tveimur dögum eftir morðið á John F. Kennedy, forseta Bandaríkjanna. Gögnin benda til þess að engin tengsl hafi verið milli Ruby og lögreglumannsins sem bar ábyrgð á öryggisgæslu þegar verið var að leiða Ruby út af lögreglustöð í Dallas í Texas.

Kennedy var myrtur 22. nóvember 1963. Oswald var handtekinn sama dag, grunaður um morðið. Oswald var í yfirheyrslum hjá lögreglu fyrstu tvo daga eftir morðið. 24. nóvember átti að flytja hann frá höfuðstöðvum lögreglunnar í Dallas í fangelsi. Fjöldi blaðamanna og ljósmyndara var viðstaddur.

Roy Vaughn, lögregluforingi, var ábyrgur fyrir öryggi við bílarampinn þar sem leiða átti Oswald út í járnum. Þangað átti ekki hver sem er að komast. Ruby tókst hins vegar að komast niður í rampinn án þess að Vaughn kæmi auga á hann. Ruby skaut síðan Oswald að blaðamönnum viðstöddum. Hann lést á sjúkrahúsi sama dag.

Margar samsæriskenningar hafa verið á lofti um morðið á Oswald líkt og um morðið á Kennedy. Ein kenningin er sú að Vaughn hafi viljandi hleypt Ruby niður í rampinn. Vaughn tók þessar sögusagnir nærri sér og taldi að með þeim væri vegið að trúverðugleika sínum.

Dave Perry, sem rannsakað hefur morðið á Kennedy, segir ekkert í gögnum benda til þess að Ruby hafi þekkt Vaughn með nafni. Gögnin bendi því til þess að ekkert sé hæft í ásökunum um að Vaughn hafi hleypt Ruby niður í rampinn.

Ruby gaf tvær ástæður fyrir því að skjóta Oswald. Hann hefði viljað sýna að gyðingar gætu verið hugrakkir og ágengnir, en Ruby var gyðingur. Hin ástæðan var að hann hefði viljað hlífa Jackie Kennedy við því að þurfa að mæta fyrir rétt til að bera vitni í máli gegn morðingja eiginmanns hennar.

Í gögnunum sem birt voru í dag og CBS-sjónvarpsstöðin segir frá kemur fram að eftirfarandi spurning var lögð fyrir Ruby þegar hann gekkst undir lygapróf: „Skaust þú Oswald til að hlífa frú Kennedy við því að bera vitni fyrir dómi?“ Svar Ruby var: „Já".

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert