Margir trúa enn samsæriskenningum

00:00
00:00

Fimm­tíu árum eft­ir morðið á John F Kenn­e­dy eru 61% Banda­ríkja­manna enn þeirr­ar skoðunar að fleiri en Lee Har­vey Oswald hafi staðið að morðinu á for­set­an­um. Skoðana­könn­un Gallup sýn­ir að allt frá morðinu fyr­ir 50 árum hef­ur meiri­hluti þjóðar­inn­ar talið að fleiri en einn hafi tekið þátt í að und­ir­búa morðið. Tals­vert færri eru þó þess­ar­ar skoðunar í dag en áður.

Vincent Bugli­osi, sem er einn þeirra sem skrifað hafa um morðið á Kenn­e­dy, seg­ir að frá því for­set­inn var skot­inn hafi 42 sam­tök, 82 morðingj­ar og 214 ein­stak­ling­ar verið áskaðir um að hafa staðið að morðinu.

Aldrei hef­ur neinn verið dæmd­ur fyr­ir morðið á Kenn­e­dy. Ástæðan er sú að maður­inn sem flest­ir telja að hafi skotið for­set­ann, Lee Har­vey Oswald, var myrt­ur tveim­ur dög­um eft­ir að Kenn­e­dy lést.

Ferðin til Dallas var liður í kosn­inga­bar­átt­unni

Ferð Kenn­e­dy til Dallas var liður í kosn­inga­bar­áttu hans vegna for­seta­kosn­ing­anna sem fram áttu að fara árið 1964. Hann hafði reynd­ar ekki form­lega til­kynnt um fram­boð, en eng­inn vafi lék á að hann stefndi að end­ur­kjöri. Hann hafði í lok sept­em­ber ferðast um ríki í vest­ur­hluta Banda­ríkj­anna þar sem hann ræddi um mennta­mál, þjóðarör­yggi og friðar­horf­ur í heim­in­um.

Mánuði síðar heim­sótti Kenn­e­dy Bost­on og Fíla­delfíu. 12. nóv­em­ber átti hann fund með ráðgjöf­um sín­um þar sem þeir ræddu um kosn­inga­bar­átt­una. Á fund­in­um sagði Kenn­e­dy að hann yrði að vinna Flórída og Texas ef hon­um ætti að tak­ast að ná end­ur­kjöri og að hann myndi heim­sækja bæði þessi ríki á næstu vik­um.

Kenn­e­dy sigraði Rich­ard Nixon mjög naum­lega 1960 og ljóst var að allt gat gerst í næstu kosn­ing­um. Það var mjög mik­il­vægt fyr­ir Kenn­e­dy að styrkja stöðu sína í suður­ríkj­um Banda­ríkj­anna, ekki síst í Texas sem er fjöl­menn­asta ríkið í suðrinu. Ástæðan fyr­ir því að hann valdi Lyndon B. John­son sem vara­for­seta var ekki síst sú að hann var frá Texas. Milli þeirra ríkti hins veg­ar aldrei sér­stak­ur trúnaður og milli Roberts Kenn­e­dys, bróður for­set­ans, og John­sons var stöðug tog­streita.

Jackie Kenn­e­dy átti að hjálpa for­set­an­um

Jackie Kenn­e­dy fylgdi eig­in­manni sín­um til Texas. Þetta var í fyrsta sinn sem hún kom fram op­in­ber­lega síðan í ág­úst, en for­seta­hjón­in misstu þá son sinn, Pat­rick, þegar hann var aðeins nokkra daga gam­all. Jackie hafði átt við þung­lyndi að stríða í kjöl­far and­láts barns­ins.

Kenn­e­dy vissi vel að Jackie Kenn­e­dy gæti styrkt stöðu hans í kosn­inga­bar­átt­unni og hann sagði í ræðu í Fort Worth, stuttu áður en hann lést, að hann gerði sér grein fyr­ir að fólk væri ekki komið til þess að sjá eða hlusta á hann held­ur til að sjá Jackie.

Deil­ur voru inn­an Demó­krata­flokks­ins í Texas á þess­um tíma og til­gang­ur ferðar­inn­ar til rík­is­ins var ekki síst sú að þjappa flokks­mönn­um sam­an. Hann vissi líka að í Texas var að finna harðan hóp and­stæðinga hans sem lík­leg­ur var til að láta and­stöðu við hann í ljós með ein­hverj­um hætti. Ein­um mánuði fyr­ir heim­sókn­ina hafði verið ráðist á Adlai Steven­son, sendi­herra Banda­ríkj­anna hjá Sam­einuðu þjóðunum, þegar hann flutti ræðu í Texas. Degi áður en Kenn­e­dy kom til Dallas var dreift þar miðum þar sem Kenn­e­dy var kallaður svik­ari.

Kenn­e­dy kom til Texas 21. nóv­em­ber. Fyrsti áfangastaður var San Ant­onio. Lyndon B. John­son, John B. Connally rík­is­stjóri og Ralph W. Yar­borough þingmaður buðu for­set­ann vel­kom­inn. Hann hélt síðan til Hou­st­on þar sem hann ávarpaði m.a. fund sam­taka Banda­ríkja­manna af s-am­er­ísk­um upp­runa. Dag­ur­inn endaði í Fort Worth.

Nokk­ur þúsund manns höfðu safn­ast sam­an fyr­ir utan Hót­el Texas þar sem for­seta­hjón­in gistu. Hann ávarpaði mann­fjöld­ann og heilsaði all­mörg­um. Það var rign­ingarúði, en for­set­inn lét það ekki á sig fá.

„Guð minn góður. Þeir ætla að drepa okk­ur öll“

For­seta­vél­in flaug síðan með for­set­ann og fylgd­arlið hans til Dallas. Hóp­ur fólks var á flug­vell­in­um og Kenn­e­dy tók í hönd­ina á þeim áður en hann sett­ist upp í op­inn bíl­inn sem átti að aka með hann til Tra­de Mart þar sem hann ætlaði að halda ræðu. John Connally rík­is­stjóri og kona hans, Nellie, sátu fremst í bíln­um, en for­seta­hjón­in fyr­ir aft­an þau. John­son vara­for­seti og kona hans voru í bíl sem fylgdi þeim eft­ir.

Á leið for­set­ans inn í borg­ina voru raðir fólks sem fylgd­ist með og veifaði til for­seta­hjón­anna. Skömmu áður en for­seta­bíll­inn kom að Dealey Plaza snéri Nellie Connally sér að Kenn­e­dy og sagði: „Herra for­seti, þú get­ur ekki haldið því fram að Dallas elski þig ekki“. Um kl. 12:30,  stuttu eft­ir að bíla­lest­in fór fram­hjá The Texas School Book Depository-bygg­ing­unni við Dealey Plaza kvað við skot­hvell­ur. Fæst­ir gerðu sér grein fyr­ir hvað var að ger­ast og sum­ir sögðu síðar að þeir hefðu haldið að skotið hefði verið á loft flug­eld­um til að fagna for­set­an­um. Connally, sem hafði verið hermaður í seinni heims­styrj­öld­inni, sagði síðar að hann hefði strax gert sér grein fyr­ir að skotið hefði verið af byssu. Eft­ir fyrsta skotið snéri Connally sér við til að gæta að for­set­an­um, en þá fékk hann skot í brjóstið. Skotið hafði farið í gegn­um háls for­set­ans og í rík­is­stjór­ann. Connally kallaði upp fyr­ir sig: „Ó, nei, nei, nei. Guð minn góður. Þeir ætla að drepa okk­ur öll.“

Hitti for­set­ann í höfuðið

Lík­ami Kenn­e­dys hallaði til hliðar og hann lyfti hönd­un­um upp og greip um háls­inn. Þá reið þriðja skotið af en það hitti for­set­ann beint í höfuðið. Stórt gat kom á höfuðkúp­una og blóð, bein­flís­ar og hluti heil­ans þöktu aft­ur­hluta bíls­ins.

Strax eft­ir þriðja skotið reyndi Jackie að skríða eft­ir bak­hluta bíls­ins. Cl­int Hill líf­vörður reyndi að klifra upp í bíl­inn. Hann sagði síðar að hann teldi að Jackie hefði verið að reyna að teygja sig eft­ir ein­hverju, lík­lega broti úr höfuðkúpu for­set­ans.

Bíll for­set­ans hélt viðstöðulaust áfram og tók nú stefn­una á næsta sjúkra­hús. Við kom­una þangað neitaði Jackie að sleppa hend­inni af eig­in­manni sín­um. Hill sagði síðar að hann hefði fljót­lega áttað sig á að hún hefði ekki getað hugsað sér að fólk gæti horft á for­set­ann, enda hefði verið skelfi­legt að sjá hann. Hill sagðist því hafa farið úr jakk­an­um og lagt hann yfir höfuð Kenn­e­dys. Þá hefði Jackie leyft sjúkra­flutn­inga­mönn­um að bera hann inn í sjúkra­húsið.

Lækn­ar fundu hins veg­ar eng­ann hjart­slátt, púls eða blóðþrýst­ing hjá for­set­an­um. Um kl. 13, hálf­tíma eft­ir skotárás­ina, var hann úr­sk­urðaður lát­inn.

Sam­kvæmt skýrslu War­ren-nefnd­ar­inn­ar, sem rann­sakaði morðið, fór fyrsta skotið í for­set­ann og þaðan í Connally. Connally sjálf­ur hélt því alltaf fram að skot núm­er tvö hefði hitt sig og for­set­ann. Þó röð skot­anna sé óljós er  hins veg­ar ljóst að Kenn­e­dy lést við þriðja skotið.

Lengi hef­ur verið deilt um hvort kúl­an sem fór í Connally hafi farið fyrst í gegn­um háls Kenn­e­dys. Hafa þarf í huga að þegar skotið reið af horfði Connally til hliðar en ekki beint áfram. Hann sat einnig neðar en Kenn­e­dy.

Sá mann með riff­il á 6. hæð

Strax eft­ir árás­ina hóf lög­regl­an leit í The Texas School Book Depository-bygg­ing­unni en vitni sögðu að skot­in hefðu komið þaðan. Eitt vitni sagðist hafa séð mann með riff­il í glugga á 6. hæðinni. Lög­regl­an fann eng­an mann þar, en fljót­lega beind­ist hins veg­ar grun­ur að Oswald, sem hafði fengið vinnu í bók­hlöðu í hús­inu ein­um mánuði fyrr. Hann hafði farið til vinnu með kunn­ingja sín­um um morg­un­inn, en hann var hins veg­ar ekki í bygg­ing­unni þegar lög­regl­an hóf leit í hús­inu.

Lög­regla sendi lýs­ingu á Oswald til lög­reglu­manna um alla borg­ina. Lög­reglumaður­inn J.D. Tippit stöðvaði bíl sinn og steig út úr bíln­um þegar Oswald kom þar að og skaut Oswald hann fjór­um sinn­um. Hann lést á staðnum. Nokk­ur vitni voru að morðinu. Stuttu síðar fékk lög­regla til­kynn­ingu frá kvik­mynda­húsi um að maður hefði farið þar inn án þess að borga. Eft­ir að lög­reglu­menn mættu á staðinn var sýn­ing bíó­mynd­ar­inn­ar stöðvuð og ljós­in kveikt. Oswald dró upp byssu í sama mund og lög­reglu­menn réðust á hann og hand­tóku hann. Hann fékk skurð á auga­brún við átök­in. Um 70 mín­út­ur voru þá liðnar frá morðinu á Kenn­e­dy.

Neitaði að hafa skotið for­set­ann

Oswald var færður á lög­reglu­stöð og var yf­ir­heyrður í 12 klukku­stund­ir, en neitaði strax aðild að morðinu á for­set­an­um og morðinu á Tippit. Hann sagði að ásak­an­ir gegn sér væru frá­leit­ar og sagði að hann hefði ein­ung­is verið hand­tek­inn vegna þess að hann hefði tengsl við Sov­ét­rík­in.

Oswald var um kvöldið ákærður fyr­ir morðið á Tippit og stuttu fyr­ir miðnætti ákærður fyr­ir morðið á Kenn­e­dy. Dag­inn eft­ir var Oswald yf­ir­heyrður í tæp­lega þrjár klukku­stund­ir. Yf­ir­heyrsl­ur hóf­ust aft­ur morg­un­inn eft­ir, 24. nóv­em­ber. Laust fyr­ir há­degi stóð til að flytja hann frá höfuðstöðvum lög­regl­unn­ar í Dallas í fang­elsi, en meðan verið var að flytja hann steig Jack Ruby, veit­inga­húsa­eig­andi, fram og skaut Oswald. Hann lést á sjúkra­húsi síðar um dag­inn.

Ýmis­legt við rann­sókn lög­regl­unn­ar kann að vekja furðu í dag. Yf­ir­heyrsl­urn­ar yfir Oswald voru t.d. ekki tekn­ar upp á seg­ul­band. Veik­leik­ar í ör­ygg­is­gæslu í kring­um Oswald vekja líka at­hygli. Hon­um var meira að segja leyft að segja nokk­ur orð við blaðamenn. Fjöldi fólks fylgd­ust með þegar Oswald var leidd­ur fram í hand­járn­um. Það leiddi til þess að Ruby fékk tæki­færi til að skjóta hann. Hafa þarf hins veg­ar í huga að löng hefð er fyr­ir því í Banda­ríkj­un­um að sýna þegar brotamaður er leidd­ur í fang­elsi í hand­járn­um.

Hver var Oswald?

Oswald var 24 ára gam­all þegar hann lést. Hann var fyrr­ver­andi hermaður í banda­ríska sjó­hern­um. Hann hafði dval­ist í Sov­ét­ríkj­un­um í þrjú ár og átti rúss­neska konu og tvö ung börn. Á þess­um tíma heim­sótti Oswald m.a. Kúbu. Í ág­úst 1963 var Oswald hand­tek­inn eft­ir að hann tókst á við menn sem mót­mæltu stjórn Kast­ró á Kúbu. Oswald sagði í sjón­varps­viðtali í sama mánuði að hann væri ekki komm­ún­isti held­ur marx­isti og á þessu tvennu væri mik­ill mun­ur.

Oswald snéri heim til Banda­ríkj­anna árið 1962. Þeir sem þekktu hann á þess­um tíma segja að hann hafi átt von á að fjöl­miðlar vildu ræða við hann um ver­una í Sov­ét­ríkj­un­um, en þeir sýndu hon­um eng­an áhuga.

Oswald gekk illa að festa ræt­ur við heim­kom­una, flutti nokkr­um sinn­um og skipti um vinnu. Í mars 1963 keypti hann Carcano riff­il. Mánuði síðar reyndi hann að myrða Edw­in Wal­ker, fyrr­ver­andi hers­höfðingja í banda­ríska hern­um, en hann slapp lítið meidd­ur. Það var ekki fyrr en eft­ir morðið á Kenn­e­dy sem grun­ur beind­ist að Oswald, en kona hans, Mar­ina Oswald, sagði að hann hefði sagt sér að hann hefði skotið á hers­höfðingj­ann vegna þess að hann væri fas­isti.

Carcano riff­ill fannst í Dealey Plaza bygg­ing­unni tæp­lega klukku­tíma eft­ir morðið á Kenn­e­dy. Hann hafði verið fal­inn á bak við pappa­kassa sem voru í bygg­ing­unni. Þrjú skot­hylki fund­ust líka við glugg­ann á 6. hæð þar sem talið er að morðing­inn hafi verið þegar hann skaut á for­set­ann.

Rann­sókn á föt­um Oswalds leiddi í ljós að hann hafði skotið af byssu skömmu áður en hann var hand­tek­inn.

„Meint­ur“ morðingi

War­ren-nefnd­in komst að þeirri niður­stöðu að Oswald hefði skotið for­set­ann og staðið einn að verki. Nefnd­in tók fram að Oswald hefði átti við and­lega erfiðleika að stríða sem skýrði að nokkru leyti hvað bjó að baki.

Þrjár aðrar rann­sókn­ir hafa farið fram á morðinu, 1968, 1977 og 1978-1979. Síðasta rann­sókn­in var ít­ar­leg­ust og í henni er fall­ist á meg­in niður­stöður War­ren-nefnd­ar­inn­ar.

Það er því flest sem bend­ir til að Oswald sé sá sem myrti John F. Kenn­e­dy og aldrei hef­ur verið sannað að fleiri hafi tekið þátt í að und­ir­búa morðið. Tengsl Oswalds við Sov­ét­rík­in og Kúbu, mis­tök sem gerð voru við rann­sókn morðsins, tengsl Kenn­e­dy við mafíuna og síðan sú staðreynd að Oswald var drep­inn tveim­ur dög­um eft­ir morðið á Kenn­e­dy veld­ur hins veg­ar því að mörg­um finnst að enn hafi ekki all­ur sann­leik­ur­inn í sam­bandi við morðið komið fram.

Á The Texas School Book Depository-bygg­ing­unni við Dealey Plaza er skilti þar sem seg­ir að hér hafi „meint­ur morðingi“ [alle­ged killer] skotið John F. Kenn­e­dy. Starfs­menn safns­ins sem er í hús­inu og er helgað sögu morðsins á for­set­an­um, hafa ít­rekað þurft að laga skjöld­inn því að veg­far­end­ur hafa reynt afmá orðið „alla­ged“ af skilt­inu.

Abra­ham Zapru­der náði mynd­um af því þegar Kenn­e­dy var myrt­ur. Mynd­irn­ar voru notaðar þegar War­ren-nefnd­in rann­sakaði morðið. Rétt er að benda á að mynd­skeiðið er ekki fyr­ir viðkvæma.

Þessi mynd var tekinn af Kennedy örfáum mínútum áður en …
Þessi mynd var tek­inn af Kenn­e­dy ör­fá­um mín­út­um áður en hann var skot­inn. Ljós­mynd/​Time
John F. Kennedy veifaði til mannfjöldans þegar hann ók inn …
John F. Kenn­e­dy veifaði til mann­fjöld­ans þegar hann ók inn í borg­ina. Ljós­mynd/​Bett­mann/​COR­BIS)
Kennedy-hjónin komu til Dallas laust fyrir hádegi 22. nóvember 1963.
Kenn­e­dy-hjón­in komu til Dallas laust fyr­ir há­degi 22. nóv­em­ber 1963. Ljós­mynd/​Bett­mann/​COR­BIS)
Það var út um þennan glugga á 6. hæð sem …
Það var út um þenn­an glugga á 6. hæð sem Oswald er tal­inn hafa skotið for­set­ann. SIXTH FLOOR MUSE­UM AT DEALEY PLAZA / HANDOUT
The Texas School Book Depository-byggingin við Dealey Plaza í Dallas …
The Texas School Book Depository-bygg­ing­in við Dealey Plaza í Dallas var friðlýst árið 1993, þegar 30 ár voru liðin frá morðinu á Kenn­e­dy. BREND­AN SMIALOWSKI
Carcano riffillinn sem Lee Harvey Oswald notaði til að skjóta …
Carcano riff­ill­inn sem Lee Har­vey Oswald notaði til að skjóta Kenn­e­dy. Hann fannst á bak við pappa­kassa í bygg­ing­unni. BREND­AN SMIALOWSKI
Abraham Zapruder náði myndum af því þegar Kennedy var myrtur. …
Abra­ham Zapru­der náði mynd­um af því þegar Kenn­e­dy var myrt­ur. Kenn­e­dy var slæm­ur í baki og var því í sér­stöku stuðnings­belti. Þetta belti gerði það að verk­um að hann gat ekki beygt sig niður eft­ir fyrsta skotið.
Lyndon B Johnson sver embættiseið sem 36. forseti Bandaríkjanna. Athöfnin …
Lyndon B John­son sver embættiseið sem 36. for­seti Banda­ríkj­anna. At­höfn­in fór fram í Air Force One um tveim­ur klukku­tím­um eft­ir að Kenn­e­dy var skot­inn. Jackie Kenn­e­dy stend­ur við hlið John­sons í bleiku drakt­inni sem hún var í þegar eig­inmaður henn­ar var myrt­ur. Blóð hans var enn í fötu henn­ar. Það var Sarah T. Hug­hes sem las John­son for­seta­eiðinn, en hún er eina kon­an sem stjórnað hef­ur inn­setn­ing­ar­at­höfn. Ljós­mynd/​Cecil Stoug­ht­on, White Hou­se
Lee Harvey Oswald var handtekinn um 70 mínútum eftir morðið …
Lee Har­vey Oswald var hand­tek­inn um 70 mín­út­um eft­ir morðið á Kenn­e­dy. Hann neitaði að hafa skotið á for­set­ann. Ljós­mynd/​Bett­mann/​COR­BIS)
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert