Margir trúa enn samsæriskenningum

Fimmtíu árum eftir morðið á John F Kennedy eru 61% Bandaríkjamanna enn þeirrar skoðunar að fleiri en Lee Harvey Oswald hafi staðið að morðinu á forsetanum. Skoðanakönnun Gallup sýnir að allt frá morðinu fyrir 50 árum hefur meirihluti þjóðarinnar talið að fleiri en einn hafi tekið þátt í að undirbúa morðið. Talsvert færri eru þó þessarar skoðunar í dag en áður.

Vincent Bugliosi, sem er einn þeirra sem skrifað hafa um morðið á Kennedy, segir að frá því forsetinn var skotinn hafi 42 samtök, 82 morðingjar og 214 einstaklingar verið áskaðir um að hafa staðið að morðinu.

Aldrei hefur neinn verið dæmdur fyrir morðið á Kennedy. Ástæðan er sú að maðurinn sem flestir telja að hafi skotið forsetann, Lee Harvey Oswald, var myrtur tveimur dögum eftir að Kennedy lést.

Ferðin til Dallas var liður í kosningabaráttunni

Ferð Kennedy til Dallas var liður í kosningabaráttu hans vegna forsetakosninganna sem fram áttu að fara árið 1964. Hann hafði reyndar ekki formlega tilkynnt um framboð, en enginn vafi lék á að hann stefndi að endurkjöri. Hann hafði í lok september ferðast um ríki í vesturhluta Bandaríkjanna þar sem hann ræddi um menntamál, þjóðaröryggi og friðarhorfur í heiminum.

Mánuði síðar heimsótti Kennedy Boston og Fíladelfíu. 12. nóvember átti hann fund með ráðgjöfum sínum þar sem þeir ræddu um kosningabaráttuna. Á fundinum sagði Kennedy að hann yrði að vinna Flórída og Texas ef honum ætti að takast að ná endurkjöri og að hann myndi heimsækja bæði þessi ríki á næstu vikum.

Kennedy sigraði Richard Nixon mjög naumlega 1960 og ljóst var að allt gat gerst í næstu kosningum. Það var mjög mikilvægt fyrir Kennedy að styrkja stöðu sína í suðurríkjum Bandaríkjanna, ekki síst í Texas sem er fjölmennasta ríkið í suðrinu. Ástæðan fyrir því að hann valdi Lyndon B. Johnson sem varaforseta var ekki síst sú að hann var frá Texas. Milli þeirra ríkti hins vegar aldrei sérstakur trúnaður og milli Roberts Kennedys, bróður forsetans, og Johnsons var stöðug togstreita.

Jackie Kennedy átti að hjálpa forsetanum

Jackie Kennedy fylgdi eiginmanni sínum til Texas. Þetta var í fyrsta sinn sem hún kom fram opinberlega síðan í ágúst, en forsetahjónin misstu þá son sinn, Patrick, þegar hann var aðeins nokkra daga gamall. Jackie hafði átt við þunglyndi að stríða í kjölfar andláts barnsins.

Kennedy vissi vel að Jackie Kennedy gæti styrkt stöðu hans í kosningabaráttunni og hann sagði í ræðu í Fort Worth, stuttu áður en hann lést, að hann gerði sér grein fyrir að fólk væri ekki komið til þess að sjá eða hlusta á hann heldur til að sjá Jackie.

Deilur voru innan Demókrataflokksins í Texas á þessum tíma og tilgangur ferðarinnar til ríkisins var ekki síst sú að þjappa flokksmönnum saman. Hann vissi líka að í Texas var að finna harðan hóp andstæðinga hans sem líklegur var til að láta andstöðu við hann í ljós með einhverjum hætti. Einum mánuði fyrir heimsóknina hafði verið ráðist á Adlai Stevenson, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, þegar hann flutti ræðu í Texas. Degi áður en Kennedy kom til Dallas var dreift þar miðum þar sem Kennedy var kallaður svikari.

Kennedy kom til Texas 21. nóvember. Fyrsti áfangastaður var San Antonio. Lyndon B. Johnson, John B. Connally ríkisstjóri og Ralph W. Yarborough þingmaður buðu forsetann velkominn. Hann hélt síðan til Houston þar sem hann ávarpaði m.a. fund samtaka Bandaríkjamanna af s-amerískum uppruna. Dagurinn endaði í Fort Worth.

Nokkur þúsund manns höfðu safnast saman fyrir utan Hótel Texas þar sem forsetahjónin gistu. Hann ávarpaði mannfjöldann og heilsaði allmörgum. Það var rigningarúði, en forsetinn lét það ekki á sig fá.

„Guð minn góður. Þeir ætla að drepa okkur öll“

Forsetavélin flaug síðan með forsetann og fylgdarlið hans til Dallas. Hópur fólks var á flugvellinum og Kennedy tók í höndina á þeim áður en hann settist upp í opinn bílinn sem átti að aka með hann til Trade Mart þar sem hann ætlaði að halda ræðu. John Connally ríkisstjóri og kona hans, Nellie, sátu fremst í bílnum, en forsetahjónin fyrir aftan þau. Johnson varaforseti og kona hans voru í bíl sem fylgdi þeim eftir.

Á leið forsetans inn í borgina voru raðir fólks sem fylgdist með og veifaði til forsetahjónanna. Skömmu áður en forsetabíllinn kom að Dealey Plaza snéri Nellie Connally sér að Kennedy og sagði: „Herra forseti, þú getur ekki haldið því fram að Dallas elski þig ekki“. Um kl. 12:30,  stuttu eftir að bílalestin fór framhjá The Texas School Book Depository-byggingunni við Dealey Plaza kvað við skothvellur. Fæstir gerðu sér grein fyrir hvað var að gerast og sumir sögðu síðar að þeir hefðu haldið að skotið hefði verið á loft flugeldum til að fagna forsetanum. Connally, sem hafði verið hermaður í seinni heimsstyrjöldinni, sagði síðar að hann hefði strax gert sér grein fyrir að skotið hefði verið af byssu. Eftir fyrsta skotið snéri Connally sér við til að gæta að forsetanum, en þá fékk hann skot í brjóstið. Skotið hafði farið í gegnum háls forsetans og í ríkisstjórann. Connally kallaði upp fyrir sig: „Ó, nei, nei, nei. Guð minn góður. Þeir ætla að drepa okkur öll.“

Hitti forsetann í höfuðið

Líkami Kennedys hallaði til hliðar og hann lyfti höndunum upp og greip um hálsinn. Þá reið þriðja skotið af en það hitti forsetann beint í höfuðið. Stórt gat kom á höfuðkúpuna og blóð, beinflísar og hluti heilans þöktu afturhluta bílsins.

Strax eftir þriðja skotið reyndi Jackie að skríða eftir bakhluta bílsins. Clint Hill lífvörður reyndi að klifra upp í bílinn. Hann sagði síðar að hann teldi að Jackie hefði verið að reyna að teygja sig eftir einhverju, líklega broti úr höfuðkúpu forsetans.

Bíll forsetans hélt viðstöðulaust áfram og tók nú stefnuna á næsta sjúkrahús. Við komuna þangað neitaði Jackie að sleppa hendinni af eiginmanni sínum. Hill sagði síðar að hann hefði fljótlega áttað sig á að hún hefði ekki getað hugsað sér að fólk gæti horft á forsetann, enda hefði verið skelfilegt að sjá hann. Hill sagðist því hafa farið úr jakkanum og lagt hann yfir höfuð Kennedys. Þá hefði Jackie leyft sjúkraflutningamönnum að bera hann inn í sjúkrahúsið.

Læknar fundu hins vegar engann hjartslátt, púls eða blóðþrýsting hjá forsetanum. Um kl. 13, hálftíma eftir skotárásina, var hann úrskurðaður látinn.

Samkvæmt skýrslu Warren-nefndarinnar, sem rannsakaði morðið, fór fyrsta skotið í forsetann og þaðan í Connally. Connally sjálfur hélt því alltaf fram að skot númer tvö hefði hitt sig og forsetann. Þó röð skotanna sé óljós er  hins vegar ljóst að Kennedy lést við þriðja skotið.

Lengi hefur verið deilt um hvort kúlan sem fór í Connally hafi farið fyrst í gegnum háls Kennedys. Hafa þarf í huga að þegar skotið reið af horfði Connally til hliðar en ekki beint áfram. Hann sat einnig neðar en Kennedy.

Sá mann með riffil á 6. hæð

Strax eftir árásina hóf lögreglan leit í The Texas School Book Depository-byggingunni en vitni sögðu að skotin hefðu komið þaðan. Eitt vitni sagðist hafa séð mann með riffil í glugga á 6. hæðinni. Lögreglan fann engan mann þar, en fljótlega beindist hins vegar grunur að Oswald, sem hafði fengið vinnu í bókhlöðu í húsinu einum mánuði fyrr. Hann hafði farið til vinnu með kunningja sínum um morguninn, en hann var hins vegar ekki í byggingunni þegar lögreglan hóf leit í húsinu.

Lögregla sendi lýsingu á Oswald til lögreglumanna um alla borgina. Lögreglumaðurinn J.D. Tippit stöðvaði bíl sinn og steig út úr bílnum þegar Oswald kom þar að og skaut Oswald hann fjórum sinnum. Hann lést á staðnum. Nokkur vitni voru að morðinu. Stuttu síðar fékk lögregla tilkynningu frá kvikmyndahúsi um að maður hefði farið þar inn án þess að borga. Eftir að lögreglumenn mættu á staðinn var sýning bíómyndarinnar stöðvuð og ljósin kveikt. Oswald dró upp byssu í sama mund og lögreglumenn réðust á hann og handtóku hann. Hann fékk skurð á augabrún við átökin. Um 70 mínútur voru þá liðnar frá morðinu á Kennedy.

Neitaði að hafa skotið forsetann

Oswald var færður á lögreglustöð og var yfirheyrður í 12 klukkustundir, en neitaði strax aðild að morðinu á forsetanum og morðinu á Tippit. Hann sagði að ásakanir gegn sér væru fráleitar og sagði að hann hefði einungis verið handtekinn vegna þess að hann hefði tengsl við Sovétríkin.

Oswald var um kvöldið ákærður fyrir morðið á Tippit og stuttu fyrir miðnætti ákærður fyrir morðið á Kennedy. Daginn eftir var Oswald yfirheyrður í tæplega þrjár klukkustundir. Yfirheyrslur hófust aftur morguninn eftir, 24. nóvember. Laust fyrir hádegi stóð til að flytja hann frá höfuðstöðvum lögreglunnar í Dallas í fangelsi, en meðan verið var að flytja hann steig Jack Ruby, veitingahúsaeigandi, fram og skaut Oswald. Hann lést á sjúkrahúsi síðar um daginn.

Ýmislegt við rannsókn lögreglunnar kann að vekja furðu í dag. Yfirheyrslurnar yfir Oswald voru t.d. ekki teknar upp á segulband. Veikleikar í öryggisgæslu í kringum Oswald vekja líka athygli. Honum var meira að segja leyft að segja nokkur orð við blaðamenn. Fjöldi fólks fylgdust með þegar Oswald var leiddur fram í handjárnum. Það leiddi til þess að Ruby fékk tækifæri til að skjóta hann. Hafa þarf hins vegar í huga að löng hefð er fyrir því í Bandaríkjunum að sýna þegar brotamaður er leiddur í fangelsi í handjárnum.

Hver var Oswald?

Oswald var 24 ára gamall þegar hann lést. Hann var fyrrverandi hermaður í bandaríska sjóhernum. Hann hafði dvalist í Sovétríkjunum í þrjú ár og átti rússneska konu og tvö ung börn. Á þessum tíma heimsótti Oswald m.a. Kúbu. Í ágúst 1963 var Oswald handtekinn eftir að hann tókst á við menn sem mótmæltu stjórn Kastró á Kúbu. Oswald sagði í sjónvarpsviðtali í sama mánuði að hann væri ekki kommúnisti heldur marxisti og á þessu tvennu væri mikill munur.

Oswald snéri heim til Bandaríkjanna árið 1962. Þeir sem þekktu hann á þessum tíma segja að hann hafi átt von á að fjölmiðlar vildu ræða við hann um veruna í Sovétríkjunum, en þeir sýndu honum engan áhuga.

Oswald gekk illa að festa rætur við heimkomuna, flutti nokkrum sinnum og skipti um vinnu. Í mars 1963 keypti hann Carcano riffil. Mánuði síðar reyndi hann að myrða Edwin Walker, fyrrverandi hershöfðingja í bandaríska hernum, en hann slapp lítið meiddur. Það var ekki fyrr en eftir morðið á Kennedy sem grunur beindist að Oswald, en kona hans, Marina Oswald, sagði að hann hefði sagt sér að hann hefði skotið á hershöfðingjann vegna þess að hann væri fasisti.

Carcano riffill fannst í Dealey Plaza byggingunni tæplega klukkutíma eftir morðið á Kennedy. Hann hafði verið falinn á bak við pappakassa sem voru í byggingunni. Þrjú skothylki fundust líka við gluggann á 6. hæð þar sem talið er að morðinginn hafi verið þegar hann skaut á forsetann.

Rannsókn á fötum Oswalds leiddi í ljós að hann hafði skotið af byssu skömmu áður en hann var handtekinn.

„Meintur“ morðingi

Warren-nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Oswald hefði skotið forsetann og staðið einn að verki. Nefndin tók fram að Oswald hefði átti við andlega erfiðleika að stríða sem skýrði að nokkru leyti hvað bjó að baki.

Þrjár aðrar rannsóknir hafa farið fram á morðinu, 1968, 1977 og 1978-1979. Síðasta rannsóknin var ítarlegust og í henni er fallist á megin niðurstöður Warren-nefndarinnar.

Það er því flest sem bendir til að Oswald sé sá sem myrti John F. Kennedy og aldrei hefur verið sannað að fleiri hafi tekið þátt í að undirbúa morðið. Tengsl Oswalds við Sovétríkin og Kúbu, mistök sem gerð voru við rannsókn morðsins, tengsl Kennedy við mafíuna og síðan sú staðreynd að Oswald var drepinn tveimur dögum eftir morðið á Kennedy veldur hins vegar því að mörgum finnst að enn hafi ekki allur sannleikurinn í sambandi við morðið komið fram.

Á The Texas School Book Depository-byggingunni við Dealey Plaza er skilti þar sem segir að hér hafi „meintur morðingi“ [alleged killer] skotið John F. Kennedy. Starfsmenn safnsins sem er í húsinu og er helgað sögu morðsins á forsetanum, hafa ítrekað þurft að laga skjöldinn því að vegfarendur hafa reynt afmá orðið „allaged“ af skiltinu.

Abraham Zapruder náði myndum af því þegar Kennedy var myrtur. Myndirnar voru notaðar þegar Warren-nefndin rannsakaði morðið. Rétt er að benda á að myndskeiðið er ekki fyrir viðkvæma.

Þessi mynd var tekinn af Kennedy örfáum mínútum áður en …
Þessi mynd var tekinn af Kennedy örfáum mínútum áður en hann var skotinn. Ljósmynd/Time
John F. Kennedy veifaði til mannfjöldans þegar hann ók inn …
John F. Kennedy veifaði til mannfjöldans þegar hann ók inn í borgina. Ljósmynd/Bettmann/CORBIS)
Kennedy-hjónin komu til Dallas laust fyrir hádegi 22. nóvember 1963.
Kennedy-hjónin komu til Dallas laust fyrir hádegi 22. nóvember 1963. Ljósmynd/Bettmann/CORBIS)
Það var út um þennan glugga á 6. hæð sem …
Það var út um þennan glugga á 6. hæð sem Oswald er talinn hafa skotið forsetann. SIXTH FLOOR MUSEUM AT DEALEY PLAZA / HANDOUT
The Texas School Book Depository-byggingin við Dealey Plaza í Dallas …
The Texas School Book Depository-byggingin við Dealey Plaza í Dallas var friðlýst árið 1993, þegar 30 ár voru liðin frá morðinu á Kennedy. BRENDAN SMIALOWSKI
Carcano riffillinn sem Lee Harvey Oswald notaði til að skjóta …
Carcano riffillinn sem Lee Harvey Oswald notaði til að skjóta Kennedy. Hann fannst á bak við pappakassa í byggingunni. BRENDAN SMIALOWSKI
Abraham Zapruder náði myndum af því þegar Kennedy var myrtur. …
Abraham Zapruder náði myndum af því þegar Kennedy var myrtur. Kennedy var slæmur í baki og var því í sérstöku stuðningsbelti. Þetta belti gerði það að verkum að hann gat ekki beygt sig niður eftir fyrsta skotið.
Lyndon B Johnson sver embættiseið sem 36. forseti Bandaríkjanna. Athöfnin …
Lyndon B Johnson sver embættiseið sem 36. forseti Bandaríkjanna. Athöfnin fór fram í Air Force One um tveimur klukkutímum eftir að Kennedy var skotinn. Jackie Kennedy stendur við hlið Johnsons í bleiku draktinni sem hún var í þegar eiginmaður hennar var myrtur. Blóð hans var enn í fötu hennar. Það var Sarah T. Hughes sem las Johnson forsetaeiðinn, en hún er eina konan sem stjórnað hefur innsetningarathöfn. Ljósmynd/Cecil Stoughton, White House
Lee Harvey Oswald var handtekinn um 70 mínútum eftir morðið …
Lee Harvey Oswald var handtekinn um 70 mínútum eftir morðið á Kennedy. Hann neitaði að hafa skotið á forsetann. Ljósmynd/Bettmann/CORBIS)
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert