„Ég var því miður aðeins of seinn,“ segir Clint Hill, lífvörður Jackie Kennedy, sem reyndi að bjarga lífi John F. Kennedy með því að henda sér yfir hann. Áður honum tókst það hafði morðinginn náð að skjóta þriðja skotinu, en það hitti forsetann í höfuðið.
Hill var lífvörður Jackie Kennedy, en hann stóð í bílnum sem fylgdi forsetabifreiðinni þegar henni var ekið inn í miðborg Dallas 22. nóvember 1963.
„Ég heyrði skothvell og leit við og sá hvað var að gerast í forsetabílnum. Ég sá að forsetinn greip um hálsinn og snéri sér til vinstri. Ég gerði mér strax grein fyrir að við stóðum frammi fyrir vandamáli og stökk af bílnum og hljóp að frú Kennedy og reyndi að klifra upp á bílinn til að reyna að búa til skjól og verja þau þannig fyrir frekari tjóni. Því miður var hleypt af þriðja skotinu og það reyndist vera banvænt,“ segir Hill þegar hann rifjar það sem gerðist við þennan örlagaríka dag.
Þegar Hill er spurður hvernig honum hafi tekist að komast upp í forsetabílinn sem var á talsverðri ferð svarar hann: „Ég veit það ekki almennilega sjálfur.“
Þegar bíll forsetans kom á Parkland-sjúkrahúsið í Dallas neitaði Jackie Kennedy að sleppa hendinni af eiginmanni sínum. Hill sagði að hann hefði fljótlega áttað sig á að hún gat ekki hugsað sér að fólk gæti horft á forsetann vegna þess hversu skelfilega var fyrir honum komið. Hill sagðist því hafa farið úr jakkanum og lagt hann yfir höfuð Kennedys. Þá hefði Jackie leyft sjúkraflutningamönnum að bera hann inn í sjúkrahúsið.
Margir trúa enn samsæriskenningum