Kerry: Mið-Austurlönd öruggari í kjölfar samkomulags

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að meira öryggi muni ríkja í Ísrael og í Mið-Austurlöndum vegna samkomulagsins sem náðist í dag um kjarnorkuáætlun Írans.

Íranar hafa samþykkt að draga úr hluta kjarnorkustarfsemi sinnar gegn því að hluti viðskiptaþvingana sem alþjóðasamfélagið hafði áður samþykkt að beita Íran verði aflétt, eða sem nemur sjö milljörðum dala.

Ísraelar eru aftur á móti mjög ósáttir og segja að „söguleg mistök“ sé að ræða, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Forseti Írans segir að með samkomulaginu hafi réttur Írans til að auðga úran verið viðurkenndur. Þessu hefur Kerry neitað. 

Stjórnvöld í Íran hafa hins vegar samþykkt að hætta að auðga úran yfir 5%. 

Vesturveldin hafa sakað Írana um að vilja smíða kjarnorkuvopn og út á það hafi kjarnorkuáætlun landsins í raun snúist um. Íranar hafa hins vegar ávallt vísað þessum ásökunum á bug. 

Samkomulagið náðist í Genf í Sviss í nótt. Það mun gilda í hálft ár, en unnið er að því að ná varanlegu samkomulagi. 

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fagnaði samkomulaginu. Hann sagði að það muni koma í veg fyrir að Íranar geti smíðað kjarnorkuvopn. 

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka