Verði Skotland sjálfstætt ríki muni þeir eftir sem áður halda pundinu sem gjaldmiðli og Elísabetu drottningu sem þjóðhöfðingja. Þeir munu hins vegar annast varnarmál sín sjálfir, samkvæmt stefnulýsingu sem Alex Salmond, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, kynnti í dag.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands verður haldin á næsta ári.
Salmond hét Skotum því í dag að þjóðin verði efnaðai og ánægðari með því að slíta hinu 300 ára gamla sambandi við Bretland. „Við yrðum sjálfstæð við heillavænlegri aðstæður en nánast nokkur önnur þjóð í sögunni,“ sagði Salmond þegar hann kynnti Hvítbókina á blaðamannafundi í Glasgow í dag.
„Þegar allt kemur til alls er kjarni málsins aðeins ein spurning og eitt val. Teljum við, fólkið sem býr og starfar í Skotlandi, að það séum við sjálf sem erum best til þess fallin að taka ákvarðanir um framtíð Skotlands?“ sagði Salmond.
Góðkunningi Íslendinga, fjármálaráðherrann fyrrverandi Alistair Darling, leiðir hreyfingu þeirra sem berjast fyrir því að halda Skotlandi undir bresku krúnunni.
Eins og gefur að skilja var tónninn í honum allur annar í dag, en hann sagði Hvítbók Salmonds vera „fulla af innantómum loforðum og marklausum fullyrðingum“.
„Í stað trúverðugrar og ígrundaðrar áætlunar fengum við óskalista með pólitískum loforðum en engum svörum um það hvernig Alex Salmond ætlar að borga fyrir þetta,“ sagði Darling.
Hvítbók Skoska þjóðarflokksins ber titilinn „Framtíð Skotlands“. Þar er 650 spurningum um hugsanlegt sjálfstæði landsins svarað og sett fram sú stefna sem flokkurinn vill fylgja eftir sjálfstæði.
Samkvæmt þeirri framtíðarsýn mun Skotland áfram eiga aðild að Evrópusambandinu og NATO. Helstu tekjur þjóðarbúsins munu koma frá olíu og gasvinnslu í Norðursjó. Breska pundið yrði sem fyrr segir áfram gjaldmiðill og Elísabet drottning áfram þjóðhöfðingi.
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum styðja um 38% Skota sjálfstæði en 47% segjast munu greiða atkvæði gegn því.