Rúmlega fimmtugur sænskur karlmaður sem afplánaði eins mánaðar fangelsi í Östragård-lágmarksöryggisfangelsinu í suðvesturhluta Svíþjóðar flúði úr fangelsinu í vikunni til þess að komast til tannlæknis. „Andlitið á mér var allt bólgið. Ég bara þoldi þetta ekki lengur,“ hefur sænska dagblaðið Dagens Nyheter eftir manninum.
Fram kemur í fréttinni að maðurinn hafi óskað eftir því að komast til tannlæknis en verið neitað um það af fangavörðum. Hann hafi því ákveðið að taka málin í eigin hendur. Þegar hann hafði brotist út úr fangelsinu fór hann rakleitt til næsta tannlæknis og lét rífa úr sér tönnina sem var að angra hann. Að því loknu gaf hann sig fram við lögreglu sem keyrði hann aftur í fangelsið. Við komuna þangað vöruðu fangaverðirnir hann við því að reyna þetta aftur og bættu einum sólarhring við afplánun mannsins.