Lögregluhópur sem ber nafnið Hisbah hefur á undanförnum dögum staðið fyrir stórfelldri lögregluaðgerð í þágu siðgæðis í Nígeríu. Hópurinn fer með það verkefni að framfylgja sharia-löggjöf landsins. Á miðvikudaginn tók hópurinn sig til og hellti niður um 240 þúsund flöskum af bjór, auk 8 þúsund lítra af heimabrugguðu áfengi.
Aminu Daurawa, formaður Hisbah-hópsins í bænum Kano, bindur vonir við að þessi aðgerð muni leiða til þess að fólk hætti að neyta ólöglegra efna. „Vonandi bætir þessi aðgerð úr laskaðri ímynd bæjarins,“ sagði Daurawa í samtali við AFP. Stórar jarðýtur sáu um að mölva bjórflöskurnar, svo áfengið flæddi bókstaflega um götur bæjarins. Á meðan stóð hópur hjá og hrópaði hvatningaorð.
Mörg hundruð manns hafa verið fangelsuð á undanförnum mánuðum í kjölfar tilskipunar frá yfirvöldum í sýslunni um að hefja eigi átak gegn siðferðisglæpum. Sharia-löggjöf var leidd í lög Nígeríu árið 2001 en löggjöfinni hefur ekki verið framfylgt sérstaklega vel. Landið skiptist í tvo hluta, í norðurhluta landsins búa flestir múslímar landsins, en kristnir menn í suðurhlutanum.