Þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin í Króatíu í dag um hvort breyta ætti stjórnarskrá landsins þannig að bann verði lagt við hjónaböndum fólks af sama kyni. Tveir þriðju hlutar kjósenda greiddu atkvæði með banni.
Spurt var hvort fólk væri sammála því að skilgreina ætti hjónaband í stjórnarskrá sem stofnun milli einungis karls og konu. 64,84% kjósenda greiddu atkvæði með því en 34,56% á móti.
Ekkert ákvæði er fyrir í stjórnarskrá landsins um hjónabandið. Mikið var deilt um málið í aðdraganda kosningarinnar. Þeir sem hvöttu fólk til að krossa við „já“ rökstuddu mál sitt með vísunum í hefðbundin fjölskyldugildi.
Þar á meðal voru kirkjusamtök sem kalla sig „Í nafni fjölskyldunnar“, en það voru þau sem knúðu fram atkvæðagreiðsluna með því að safna 700.000 undirskriftum með kröfu þess efnis síðasta vor.
Tilefnið var m.a. fréttir um að ríkisstjórnin væri með í bígerð frumvarp að lögum um að samkynhneigð pör geti skráð sig sem „lífsförunauta“. Kirkjunnar menn óttuðust að næsta skref þar á eftir yrði að heimila þeim að gifta sig.
Forsætisráðherra Króatíu, Zoran Milanovic, kallaði þjóðaratkvæðagreiðsluna sorglega og vitlausa. Andstæðingar stjórnarskrárbreytingarinnar segja að verið sé að innleiða mismunun í stjórnarskrána.
Frjálslyndari öfl í landinu vara við því að þetta kunni að gefa íhaldsmönnum byr undir báða vængi í að skerða réttindi minnihlutahópa.
„Í dag eru samkynhneigðir skotmarkið. Á morgun verður það fólk sem hjólar, svo hundaeigendur, Gyðingar, við vitum hvernig þetta gengur fyrir sig,“ hefur AFP eftir Ilja Desnica, manni á sextugsaldri sem greiddi atkvæði gegn stjórnarskrárbreytingu.
„Þetta er fasisminn að koma inn um bakdyrnar.“