Bretar virðast hafa litla trú á Evrópusambandinu ef marka má nýja könnun sem gerð var í Bretlandi og þremur öðrum ríkjum Evrópu. Einungis 26% Breta telja ESB af hinu góða á meðan 42% telja það af hinu vonda. Aftur á móti eru 62% Pólverja jákvæð gagnvart ESB en 13% neikvæð. Í Þýskalandi eru 55% jákvæðir á meðan 17% Þjóðverja telja ESB af hinu illa. 36% Frakka eru jákvæðir í garð ESB en 34% neikvæðir.
Telja litla eftirsjá í Bretum
Á sama tíma virðast Pólverjar, Þjóðverjar og Frakkar vera neikvæðir í garð Breta, samkvæmt frétt sem birt er í Guardian í dag.
Þar kemur fram að fyrrverandi utanríkisráðherra Íhaldsflokksins, Malcolm Rifkind, og aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, formaður Frjálslyndra demókrata, Nick Clegg, hafi tekið höndum saman ásamt hópi annarra sem hvetja til þess að barist verði gegn áróðri gegn ESB í Bretlandi. Allt bendi til þess að Bretland sé á leið út úr ESB.
Alls tóku um fimm þúsund manns þátt í könnuninni og virðist sem íbúar á meginlandi Evrópu telji litla eftirsjá að Bretum ef landið ákveður að yfirgefa ESB.