Sakaði mótmælendur um valdarán

Forsætisráðherra Úkraínu, Mykola Azarov, sakaði mótmælendum sem vilja nánari tengsl landsins við Evrópusambandið í dag um tilraun til valdaráns og sagði mótmæli þeirra ólögleg og stjórnlaus. Mótmælin hafa staðið undanfarna daga og hófust í kjölfar þess að stjórnvöld í Úkraínu hættu við að skrifa undir samstarfssamning við sambandið.

Tugir þúsundir hafa tekið þátt í mótmælunum í höfuðborginni Kiev og hafa mótmælendur meðal annars lagt undir sig ráðhús borgarinnar og hindrað aðgengi að skrifstofum ríkisstjórnarinnar. Til átaka hefur komið við lögreglu og rýmdi hún aðaltorgið í borginni um helgina með þeim afleiðingum að 200 manns slösuðust. Sú aðgerð kallaði á hörð mótmæli frá Evrópusambandinu og vestrænum ríkjum.

Azarov sagði við erlenda sendiherra í dag að það væru ekki friðsamleg mótmæli að hindra aðgengi að opinberum stofnunum. Það væri mjög alvarleg aðgerð. Sagði hann slíkt geta komið í veg fyrir að opinberir starfsmenn fengju launin sín greidd og að ellilífeyrisþegar fengju bæturnar sínar.

Forsætisráðherrann gagnrýndi ennfremur stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu Úkraínu sem tekið hefðu þátt í mótmælunum fyrir að gera ástandið enn verra. Sagði hann lögregluna hafa fyrirmæli um að beita ekki valdi gegn friðsamlegum mótmælum og sagði stjórn sína reiðubúna til viðræðna við mótmælendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert