Bretar þurfa að gera sér grein fyrir að þeir eru ekki stórveldi heldur „aðeins gamalt evrópskt land þar sem margir stunda nám og ferðalög,“ sagði í kínverska ríkissjónvarpinu í dag í tilefni af heimsókn Davids Cameron, forsætisráðherra Bretlands, til Kína.
„Kína mun ekki falla fyrir „einlægni“ Camerons,“ sagði í leiðara dagblaðsins Global Times í dag. Ástæðu þessa pirrings í garð Camerons má rekja til þess að hann hitti Dalai Lama, andlegan leiðtoga Tíbeta, á síðasta ári.
Sá fundur olli djúpfrosti í samskiptum ríkjanna. En í gær kom Cameron til Kína og hitti m.a. forsætisráðherrann í Peking. Þar var skrifað undir ýmsa viðskiptasamninga. Þá átti Cameron einnig fund með forseta landsins, Xi Jinping.
Í dag heldur heimsókn forsetans áfram og mun hann m.a. heimsækja viðskiptaborgina Shanghai.
Í fylgd með forsetanum er hópur yfir 100 viðskiptamanna, m.a. yfirmenn Jaguar Land Rover, Rolls Royce og Royal Dutch Shell. Þá er einnig forstjóri kauphallarinnar í London með í för.