Bandarísk dýraverndarsamtök freista þess nú að fá þarlenda dómstóla til þess að samþykkja að fjórir simpansar séu lögpersónur og skuli þar með njóta réttinda á við fólk. Tilgangurinn er að frelsa apana frá þeim aðstæðum sem þeir búa við og gera þeim mögulegt að eyða því sem þeir eiga eftir á verndarsvæði fyrir villt dýr í Bandaríkjunum.
Fram kemur í frétt AFP að tveir apanna séu í eigu rannsóknarstofu á Long Island í New York-borg, einum sé haldið föngnum í búri á hjólhýsasvæði í nágrenni borgarinnar og sá fjórði sé 26 ára og búi á heimili skammt frá Niagara-fossum. Krafan byggir á lögum sem dýraverndarsamtökin segja að hafi áður verið beitt í New York-borg og notuð til þess að veita þrælum frelsi sitt á 19. öld þegar þrælahald var enn til staðar í Bandaríkjunum.