Frans páfi hefur nú greint frá því að hann hafi eitt sinn unnið sem útkastari í næturklúbbi í heimalandinu Argentínu.
Frans er nú 77 ára. Hann sagði frá þessari óvenjulegu starfsreynslu sinni er hann heimsótti kirkju í úthverfi Rómar, að því er fram kemur í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar.
Þar lýsti hann einnig reynslu sinni af því að sópa gólf og vinna á rannsóknarstofu er hann var unglingur. Dagblað Vatíkansins, L'Osservatore Romano, greinir frá þessu.
Frans páfi gaf sér fjórar klukkustundir til að spjalla við fólk í kirkjunni á sunnudag.
Hann fór ekki út í nein smáatriði varðandi starf sitt sem útkastari eða hvaða þýðingu það hafi haft fyrir hann síðar meir. Hann sagði hins vegar að starf hans við kennslu bókmennta og sálfræði, hafi kennt sér hvernig hægt væri að „koma fólki aftur inn í kirkjurnar.“