Nelson Mandela látinn

Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, lést í kvöld, 95 ára að aldri. Mandela var fyrsti hörundsdökki forseti landsins og gegndi hann embættinu frá 1994-1999. Heilsu hans hafði farið hrakandi undanfarin ár og var hann lagður inn á spítala í Pretoríu vegna lungnasýkingar þann 8. júní sl.

Mandela fæddist 18. júlí 1918 og fékk þá nafnið Rolihlahla Mandela. Þegar hann hóf skólagöngu sína gaf kennslukonan öllum nemendunum enskt nafn og eftir það var hann alltaf kallaður Nelson. Mandela var einn helsti andstæðingur kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar (apartheid) og var í Afríska þjóðarráðinu (ANC) sem barðist fyrir auknum réttindum blökkumanna, m.a. með því að brjóta gegn ákvæðum kynþáttalöggjafarinnar, brenna vegabréf sín og fara í verkföll. Hann var einn stofnenda herskáu samtakanna Umkhonto we Sizwe (Spjót þjóðarinnar) sem stóð fyrir nokkrum sprengjutilræðum á opinberar byggingar. Árið 1962 var hann handtekinn og dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir skipulögð skemmdarverk og fyrir að ætla að steypa ríkisstjórninni af stóli.

46664

Mandela sat inni í alls 27 ár. Lengst af dvaldi hann í fangelsi á Robben-eyju og þar var hann fangi númer 46664. Númerið notaði síðar hann í viðamikilli baráttu gegn alnæmi. Meðan á afplánuninni stóð var honum nokkrum sinnum boðið að verða frjáls maður á ný gegn því skilyrði að hann legði réttindabaráttuna af en hann neitaði því alltaf. Hann sagði að á meðan aðskilnaðarstefnan væri enn við lýði væri hann ekki frjálsari utan veggja fangelsisins en innan þeirra. Mandela var í hámarksgæslu í Robben-fangelsinu og sætti hann illri meðferð fangavarða. Hann greindist með berkla og glímdi við veikindi í lungum æ síðan. Mál Mandela og barátta hans vakti sífellt meiri athygli og urðu raddir sem kröfðust þess að hann yrði látinn laus æ háværari. Alþjóðlegri herferð var hrundið af stað og var Mandela sleppt árið 1990.

Mandela varð formaður ANC, gaf út ævisögu sína og leiddi samningaviðræður við forsetann F.W. de Klerk um að leggja niður aðskilnaðarstefnuna. Hann og de Klerk fengu friðarverðlaun Nóbels árið 1993 en eflaust hefur foreldrum Mandela þótt hann heldur ólíklegur til slíks afreks þar sem nafnið Rolihlahla, sem honum var gefið við fæðingu, þýðir vandræðagemsi eða friðarspillir. Alls hefur hann hlotið yfir 250 verðlaun. Í fyrstu lýðræðislegu kosningum landsins árið 1994 var Mandela kosinn forseti, fyrstur blökkumanna. Hann gegndi embættinu til ársins 1999 og í stjórnartíð hans var stjórnarskrá landsins breytt á þann veg að blökkumenn öðluðust sömu réttindi og hvítir.

Madiba, faðir þjóðarinnar

Mandela naut mikillar virðingar, ekki aðeins í Suður-Afríku heldur um heim allan. Heimamenn lýstu honum sem föður þjóðarinnar og kölluðu hann gjarnan Madiba, sem er nafn sem Xhosa ættflokkurinn hans gaf honum. Er það mat margra að hann hafi komið í veg fyrir að blóðug átök brytust út í Suður-Afríku eftir að honum var sleppt úr fangelsi, með framkomu sinni. Hann faðmaði fangaverðina sem níddust á honum árum saman, fyrirgaf höfundum aðskilnaðarstefnunnar og bauð m.a.s. ekkju eins þeirra í te. Ástandið var víða eldfimt og hvítir óttuðust um framtíð sína í landinu þar sem meirihlutinn var blökkumenn, en Mandela róaði þjóðina og vann ötullega að því með ríkisstjórninni, sem eingöngu var skipuð hvítu fólki, að leggja aðskilnaðarstefnuna niður og bæta réttindi blökkufólks.

Mandela var þrígiftur og átti sex börn. Mandela-dagurinn var haldinn í fyrsta sinn árið 2009 á afmælisdegi Mandela, 18. júlí. Seinna sama ár lýstu Sameinuðu þjóðirnar því yfir að framvegis yrði dagurinn alþjóðlegi Nelson Mandela dagurinn.

Nelson Mandela.
Nelson Mandela. AFP
Mandela á heimili sínu í Jóhannesarborg í apríl sl.
Mandela á heimili sínu í Jóhannesarborg í apríl sl. SABC
Mandela ásamt eiginkonu sinni Graca Machel.
Mandela ásamt eiginkonu sinni Graca Machel. JACQUELYN MARTIN
Mandela var í 27 ár í fangelsi, þar af 20 …
Mandela var í 27 ár í fangelsi, þar af 20 á Robben-eyju.
Ungur Nelson Mandela.
Ungur Nelson Mandela.
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert