Þriggja ára drengur sem hugðist baða kornunga tvíburabræður sína á meðan móðir þeirra svaf djúpum áfengissvefni drekkti óvart öðrum þeirra og olli hinum varanlegum heilaskaða. Móðirin sem þjáist af svefnleysi hafði um daginn drukkið fjóra mjög sterka bjóra og steinsofnaði eftir það.
Málið var tekið fyrir hjá dómstólum í Liverpool á Englandi í gær, en þar gerðust einmitt atvik máls. Konan hafði flúið ofbeldisfullt samband og bjó í lítilli íbúð með börnin sín þrjú. Hún svaf í sama rúmi og þriggja ára drengurinn en konan hafði búið um kornabörnin í skúffu. Öll tóku þau sér síðdegisblund þennan örlagaríka dag.
Greint er frá málinu á vefsvæði breska dagblaðsins Daily Mail. Hins vegar kemur ekki fram í greininni hvenær nákvæmlega málið kom upp, né heldur hversu gömul kornabörnin voru.
„Drykkirnir spiluðu augljóslega stóran þátt í því að þú sofnaðir og vaknaðir ekki þegar drengurinn ungi vaknaði og fór úr rúminu. Á meðan þú svafst ákvað drengurinn að þrífa bærður sína og setti þá því í bað. Þegar honum tókst að vekja þig fannst þú börnin þín á floti í baðvatninu. Þau voru köld, nakin og önduðu ekki,“ sagði dómarinn Justice Cox.
Konan hringdi í Neyðarlínuna og voru tvíburarnir fluttir á sjúkrahús í Liverpool. Nokkrum dögum síðar lést annar þeirra. Hinn hlaut varanlegan heilaskaða. „Málið snýst ekki um að þú hafir haft ásetning til að meiða börnin þín eða vanrækja. Ég fellst á að þú hafir ekki viljað vinna þeim mein. En þú ákvaðst að drekka sterka bjóra þennan dag og áhrif þess eru hörmuleg,“ sagði dómarinn sem dæmdi konuna í eins árs skilorðsbundið fangelsi. „Raunverulega refsingin felst í minningum þínum um þennan dag.“