Forsætisráðherra Tékklands hefur verið á milli tannanna á fólki í dag eftir að upptaka úr þingsal tékkneska þingsins var gerð opinber og fór svo í dreifingu á netinu. Á upptökunni má heyra ráðherrann tala um hvað hann langi ekki að vera viðstaddur útför Nelsons Mandela 15. desember næstkomandi.
„Ég var búinn að skipuleggja hádegisverð og kvöldverð, þannig að ég hef lítinn áhuga á að fara þangað. Mig langar eiginlega bara ekkert til þess,“ heyrist Jiri Rusnok, forsætisráðherra Tékklands, segja við Vlastimil Picek, varnarmálaráðherra landsins, í gærdag. Tékkneskir fjölmiðlar spiluðu upptökuna í fréttatímum í gærkvöldi og í kjölfarið fór hún í almenna dreifingu á netinu og hefur víða farið.
Rusnok bætti því við í samtalinu við Picek að hann vonaðist til að Milos Zeman, forseti landsins, farið í hans stað. Zeman er hins vegar að jafna sig eftir að hafa slasast á hné. „Hvernig heldur þú að hann getið gengið upp stigann að flugvélinni?“ spurði þá Picek. Svaraði Rusnok þá: „Hann flýgur líklega ekki þannig að ég sit í súpunni.“