Laun breskra þingmanna munu á árinu 2015 hækka um 11% og fara þannig í 74 þúsund pund á ári þrátt fyrir að formenn allra þriggja flokka þingsins séu því andvígir. Launakjör þingmanna eru ákveðin af sjálfstæðri nefnd sem sett var á laggirnar fyrir tveimur árum til þess að koma í veg fyrir að þingmenn ákveði eigin laun.
Launahækkunin hefur vakið töluverða reiði í landinu. Danny Alexander, fulltrúi frjálslyndra demókrata í fjármálaráðuneytinu, hefur sagt að hækkunin sé ekki viðeigandi á sama tíma og laun opinberra starfsmanna hafi verið fryst. Bæði Nick Clegg, formaður frjálslyndra demókrata, og Ed Miliband, formaður verkamannaflokksins, hafa sagt að þeir ætli ekki að þiggja launahækkunina, komi hún til framkvæmda. David Cameron, forsætisráðherra og formaður íhaldsflokksins, hefur ekki tjáð sig um hækkunina nýlega, en hefur áður sagt að á tímum niðurskurðar og aðhalds í ríkisfjármálum sé ekki við hæfi að hækka laun þingmanna.
Ian Kennedy, formaður IPSA-nefndarinnar sem ákvarðar laun þingmanna, segir að þau hafi lengi verið of lág og það sé alveg jafnrangt að hækka ekki laun þingmanna þegar það eigi við. Jack Straw, þingmaður verkamannaflokksins og fyrrverandi ráðherra, tekur undir þessi orð og segir að þótt það virðist aldrei viðeigandi að hækka laun þingmanna verði launin að vera þannig að fólk úr öllum stéttum sækist eftir þingmennsku.