11% launahækkun breskra þingmanna

Ed Miliband hér ásamt David Cameron og Nick Clegg er …
Ed Miliband hér ásamt David Cameron og Nick Clegg er fyrir aftan þá STEFAN ROUSSEAU

Laun breskra þing­manna munu á ár­inu 2015 hækka um 11% og fara þannig í 74 þúsund pund á ári þrátt fyr­ir að for­menn allra þriggja flokka þings­ins séu því and­víg­ir. Launa­kjör þing­manna eru ákveðin af sjálf­stæðri nefnd sem sett var á lagg­irn­ar fyr­ir tveim­ur árum til þess að koma í veg fyr­ir að þing­menn ákveði eig­in laun. 

Launa­hækk­un­in hef­ur vakið tölu­verða reiði í land­inu. Danny Al­ex­and­er, full­trúi frjáls­lyndra demó­krata í fjár­málaráðuneyt­inu, hef­ur sagt að hækk­un­in sé ekki viðeig­andi á sama tíma og laun op­in­berra starfs­manna hafi verið fryst. Bæði Nick Clegg, formaður frjáls­lyndra demó­krata, og Ed Mili­band, formaður verka­manna­flokks­ins, hafa sagt að þeir ætli ekki að þiggja launa­hækk­un­ina, komi hún til fram­kvæmda. Dav­id Ca­meron, for­sæt­is­ráðherra og formaður íhalds­flokks­ins, hef­ur ekki tjáð sig um hækk­un­ina ný­lega, en hef­ur áður sagt að á tím­um niður­skurðar og aðhalds í rík­is­fjár­mál­um sé ekki við hæfi að hækka laun þing­manna. 

Aldrei rétt­ur tími til að hækka laun þing­manna

Ian Kenn­e­dy, formaður IPSA-nefnd­ar­inn­ar sem ákv­arðar laun þing­manna, seg­ir að þau hafi lengi verið of lág og það sé al­veg jafnrangt að hækka ekki laun þing­manna þegar það eigi við. Jack Straw, þingmaður verka­manna­flokks­ins og fyrr­ver­andi ráðherra, tek­ur und­ir þessi orð og seg­ir að þótt það virðist aldrei viðeig­andi að hækka laun þing­manna verði laun­in að vera þannig að fólk úr öll­um stétt­um sæk­ist eft­ir þing­mennsku.  

Danny Alexander, fulltrúi frjálslyndra demókrata í fjármálaráðuneytinu
Danny Al­ex­and­er, full­trúi frjáls­lyndra demó­krata í fjár­málaráðuneyt­inu Mynd/​AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert