Lausgyrtur eiturlyfjafíkill

Yfirvöld í Norður-Kóreu staðfestu í dag að frændi Kim Jong-Un, leiðtoga landsins, hefði verið sviptur völdum. Frændinn, Jang Song-Thaek, var einn valdamesti maður landsins.

Jang er sakaður um spillingu í starfi og að hann sé eiturlyfjafíkill og lausgyrtur.

Jang Song-Thaek var áður helsti aðstoðarmaður Kim en hann sá meðal annars um að leiðtogaskiptin gengu áfallalaust fyrir sig árið 2011 er Kim tók við starfinu við fráfall föður síns.

Það var leyniþjónusta Suður-Kóreu sem greindi fyrst frá því að Jang væri ekki lengur við völd í nágrannaríkinu í síðustu viku. Var því meðal annars haldið fram að hann hefði verið tekinn af lífi ásamt tveimur öðrum embættismönnum en það átti ekki við rök að styðjast samkvæmt nýjustu fréttum.

Samkvæmt frétt ríkisfréttastofu N-Kóreu, KCNA, var afsögn Jangs staðfest sem og helstu stuðningsmanna hans innan Verkamannaflokksins. Það hafi verið gert þar sem Jang hafi haft sína hagsmuni meira í huga en flokksins. Eins hafi hann átt í ástarsambandi við nokkrar konur og hann hafi etið og drukkið á lúxusveitingastöðum í anda auðvaldsins.

Hugmyndafræði hans sé orðin spillt, hann hafi notað eiturlyf, eytt erlendu fé í spilavítum á meðan hann leitaði sér læknisaðstoðar í útlöndum á kostnað ríkisins.

Jang Song-Thaek
Jang Song-Thaek AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert