Karlmaður sem ákærður hefur verið fyrir að myrða breskan hermann með hrottafengnum hætti sagði við réttarhöldin í dag að hann elskaði hryðjuverkasamtökin al-Qaeda. Hann segist líta á íslamska skæruliða sem bræður sína.
Michael Adebolajo er 28 ára. Hann sat umkringdur öryggisvörðum við réttarhöldin sem fram fóru í London í dag.
Hann og hinn 22 ára gamli Michael Adebowale er ákærðir fyrir að myrða hinn 25 ára gamla hermann Lee Rigby um hábjartan dag á götu í London í maí.
Komið hefur fram við réttarhöldin að tvímenningarnir óku fyrst yfir Rigby á bíl sínum. Þeir réðust svo á hann með hnífum og kjötsveðju og reyndu m.a. að höggva af honum höfuðið.
Mennirnir eru af breskum og nígerískum uppruna.
Fjölskylda hermannsins sat örstutt frá Adebolajo í réttarsalnum í dag er hann sagði: „Al-Qaeda, ég elska þá, þeir eru bræður mínir.“
Hann segist þó aldrei hafa hitt neinn úr samtökunum.
Adebolajo segist hafa verið alinn upp í kristni en hafi orðið múslími á fyrsta ári í háskóla.
„Trú mín skiptir mig öllu máli,“ sagði hann við réttarhöldin í dag.
Adebolajo er giftur og á sex börn. Hann segir að einn félaga sinna hafi gengið í herinn og látist í bardaga í Írak. Hann segist kenna Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, um andlát hans.
Hann reyndi að fara til Sómalíu árið 2010 en var stöðvaður í Kenía og sendur aftur til Bretlands. Hann segist hafa tekið þátt í mótmælum íslamista í Bretlandi en segir þau hafa verið árangurslaus.
„Engin mótmæli munu skipta máli,“ sagði hann. Hann ítrekaði það í vitnisburði sínum í dag að hann væri hermaður og sæi ekki eftir því sem kom fyrir Rigby.
„Ég sé aldrei eftir að hlýða fyrirmælum Allah. Það er allt sem ég get sagt.“
Adebolajo sagði lögreglunni við skýrslutökur að hann hafi ráðist á Rigby því að hermaður hefði verið réttlátasta fórnarlambið til að hefna fyrir dráp á múslímum í útlöndum.
Hann segist hafa reynt að afhöfða hann af því að það hafi verið „mannúðleg“ leið til að drepa hann.