„Samkynhneigð glæpsamlegt athæfi“

Hæstiréttur Indlands hefur staðfest lög þar sem kynlíf fólks af sama kyni er talið saknæmt. Er dómur hæstaréttar talinn hafa mikil áhrif á réttindabaráttu samkynhneigðra á Indlandi.

Niðurstaðan er í andstöðu við ákvörðun næsta dómsstig fyrir neðan árið 2009 þar sem samkynhneigð var ekki talin brot á lögum. Segir í dómnum frá því í dag að það sé í höndum þingsins að breyta lögum landsins.

Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að dómur hæstaréttar byggi á 148 ára gömlum lögum frá nýlendutímanum þar sem samband fólks af sama kyni sé óeðli og við því broti liggi allt að tíu ára fangelsisvist.

Baráttufólk fyrir réttindum samkynhneigðra segja dóm hæstaréttar í dag mikil vonbrigði og að sögn lögfræðingsins, Arvind Narrain, er dagurinn í dag svartur dagur í réttarsögu Indlands.

Árið  2009 úrskurðaði dómur í Nýju-Delí að lagagreinin, sem vísað er til hér að framan, sé mismunun og að kynlíf fullorðins fólks af sama kyni eigi ekki að vera saknæmt.  Mikil ánægja var með þá niðurstöðu meðal samkynhneigðra á Indlandi sem töldu að dómurinn myndi vernda þá fyrir árásum. Hins vegar voru ýmsir trúarhópar mjög ósáttir við þá niðurstöðu. Einkum leiðtogar múslima og kristinna á Indlandi.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert