Óvíst hvort hundakjöt ratar í verslanir

Hætt er við því að grænlenska hundasleðastofninum hnigni vegna lofstlagsbreytinga.
Hætt er við því að grænlenska hundasleðastofninum hnigni vegna lofstlagsbreytinga. mbl.is/RAX

Hundakjöt verður ekki selt í grænlenskum verslunum á næstunni, þrátt fyrir að hugmyndir séu uppi um að rækta sleðahunda til slátrunar. Greiða þarf úr ýmsum lagaflækjum og tryggja að hundarnir séu sjúkdómalausir, áður en kjötið fæst vottað til manneldis.

Þetta er meðal þess sem kom fram á öðrum degi ráðstefnu um framtíð grænlenska sleðahundsins, sem fer nú fram í Ilulissat.

Kjötið gæti verið sýkt

mbl.is sagði frá því í vikunni að Grænlendingar eru uggandi um framtíð sleðahundastofnsins. Þeim fækkar sem halda hunda enda eru þeir dýrir í rekstri en notagildið minnkar eftir því sem ísbreiðan þynnist vegna loftslagsbreytinga.

Samtök hundasleðaeigenda (KNQK) hafa lagt til að heimilað verði að selja hundakjöt á innanlandsmarkað, til að tryggja viðhald stofnsins. Hugmyndin er ekki úr lausi lofti gripin því í veiðimannasamfélaginu þekkist það að hundar séu étnir af eigendum sínum. 

Á ráðstefnunni í Ilulissat í dag sagði dýralæknirinn Sanne Wenneberg að ýmis ljón séu í vegnum áður en hundakjöt ratar í kjötborð verslana. Hún sagði að kjötið gæti reynst hættulegt mönnum enda geti hundarnir verið sýktir bæði af hárormum og hundaæði. 

Ekki verði heldur hægt að hefja eiginlega framleiðslu á hundakjöti fyrr en útbúið hafi verið gæðavottunarkerfi, sambærilegt því sem sé við lýði við framleiðslu lambakjöts.

Kalla eftir öðrum hugmyndum

„Við höfðum nú ekki hugsað okkur að framleiða hundakjöt í tonnavís til útflutnings. Hugmyndin var sú að framleiða kjöt fyrir kúnna sem eru vanir því að borða hundakjöt. En nú höfum við verið upplýst um að það séu miklar hindranir í veginum,“ hefur grænlenski vefmiðillinn Sermitsiaq eftir Mikkel Jeremiassen, formanni KNQK.

„Við getum ekki gert neitt varðandi loftslagsbreytingarnar, en þær þýða að við notum hundasleða í minna mæli. Það verður mjög áhugavert að heyra aðrar hugmyndir um það hvernig við getum haldið sleðahundastofninum við,“ segir Jeremiassen. 

Aleqa Hammond, formaður landsstjórnar Grænlands, segir í samtali við Sermitsiaq að það séu ekki bara loftslagsbreytingarnar heldur líka breyttir lífs- og viðskiptahættir í Grænlandi sem valdi því að sleðahundar séu minna notaðir.

„Það er mjög kostnaðarsamt að halda sleðahunda og sérstaklega dýrt þegar eigendur hafa orðið minni not af þeim. Við þurfum að finna lausn á því hvernig hægt er að styðja hundaeigendur,“ segir Hammond.

„Hundasleðinn er mjög mikilvægur hluti af menningu okkar og sjálfsmynd. Að sjálfsögðu er mikilvægt að tryggja framtíð hans.“

Vilja sleðahundakjöt á diskinn sinn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert