Útiloka að semja við Snowden

Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, hafnar samningaviðræðum við Snowden.
Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, hafnar samningaviðræðum við Snowden. SAUL LOEB

Talsmaður Hvíta hússins í Bandaríkjunum útilokaði í dag að bandarísk stjórnvöld myndu semja um að hætta við málssókn gegn uppljóstraranum Edward Snowden.

Vangaveltur hafa verið uppi í Bandaríkjunum um að stjórnvöld væru tilbúin til að semja við Snowden um að falla frá málssókn gegn honum gegn því að hann héti því að birta ekki frekari upplýsingar úr þeim gögnum sem hann komst yfir þegar hann starfaði fyrir Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA). Talið er að mikill meirihluti af þeim skjölum sem Snowden komst yfir hafi ekki enn verið gerður opinber, jafnvel sé hann ekki búinn að birta nema 1% af því sem hann er með.

Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, sagði á blaðamannafundi í dag að Snowden stæði áfram frammi fyrir málssókn fyrir að leka trúnaðarupplýsingum. Ekkert benti til að sú staða breyttist. Hann sagði þetta eftir dómari við alríkisdómstól komst að þeirri niðurstöðu að hleranir NSA fælu líklega í sér brot á stjórnarskrá. Talið er víst að stjórnvöld muni áfrýja þeirri niðurstöðu.

Carney sagði að stjórnvöld myndu halda áfram að þrýsta á Rússa að framselja Snowden til Bandaríkjanna. Afstaða Bandaríkjanna til málsins væri óbreytt.

Richard Ledgett, yfirmaður hjá NSA, hefur sagt að hann sé þeirrar skoðunar að rétt sé að kanna hvort Snowden sé tilbúinn til að fallast á að birta ekki upplýsingar úr skjölum sem hann er með gegn því að fallið verði frá málssókn gegn honum.

Carney gaf lítið fyrir þessi ummæli og sagði að aðeins væri um að ræða persónulega skoðun eins manns. Hvíta húsið tæki ekki undir þessa skoðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka