Indverskur ríkiserindreki, sem var handtekinn í New York fyrir að hafa greitt starfsmanni of lág laun og fyrir að hafa logið til þess að fá vegabréfsáritun fyrir starfsmanninn sem einnig er indverskur, lýsir því hvernig hann var niðurlægður af yfirvöldum eftir handtökuna.
Devyani Khobragade var handtekin á fimmtudag þegar hún fór með börn sín í skólann. Að hennar sögn var hún handjárnuð og gert að afklæðast við yfirheyrslu og þola líkamsleit. Mikil reiði er meðal Indverja við meðferðinni sem hún varð að þola enda þykir Khobragade hafa verið niðurlægð af bandarískum yfirvöldum.
Í tölvupósti sem hún ritaði starfssystkinum sínum segir Khobragade að hún hafi ítrekað greint frá því að hún nyti friðhelgi vegna starfs síns en það eina sem hún bar úr býtum var að leitað var á henni aftur og aftur og henni síðan hent í fangaklefa ásamt venjulegum glæpamönnum.
„Ég verð að viðurkenna að ég brotnaði saman aftur og aftur þegar ég var vanvirt aftur og aftur með því að vera handjárnuð, berháttuð og leitað á mér,“ segir hún í tölvupóstinum og bætir við að henni hafi verið hent inn í fangaklefa með glæpamönnum og eiturlyfjafíklum. Bréfið er birt á vef Times of India í dag.
Í tölvupóstinum grátbænir Khobragade indversku ríkisstjórnina um að tryggja öryggi hennar og barna hennar. Eins að tryggja virðingu indversku utanríkisþjónustunnar.
Bandaríska utanríkisþjónustan hefur sent frá sér yfirlýsingu um að ekki eigi að láta málið eyðileggja góð samskipti ríkjanna tveggja. Talskona utanríkisráðuneytisins staðfestir að málið sé viðkvæmt en segir að um einstakt tilvik sé að ræða.