Einn þekktasti lestarræningi sögunnar, breski glæpamaðurinn Ronnie Biggs er látinn 84 ára að aldri.
Eitt stærsta og þekktasta lestarrán sögunnar var framið árið 1963 í Englandi. 2,6 milljónum punda, sem eru um 40 milljónir punda á núvirði, eða um átta milljarðar kr.,var stolið úr lest sem lagði af stað frá Glasgow í Skotlandi til London. Ræningjarnir voru 17 talsins og voru flestir þeirra handteknir skömmu síðar, þrír af þeim hafa hinsvegar aldrei fundist, samkvæmt grein sem birtist í Sunnudagsmogganum í fyrra.
Árið 1965 flúði þekktasti meðlimur hópsins, Ronald Arthur „Ronnie“ Biggs úr fangelsi hennar hátignar með því að klifra yfir fangelsisvegginn og stökkva niður í bíl sem keyrði hann af vettvangi.
Í fyrstu flúði hann til Brussel en fór fljótt til Parísar ásamt eiginkonu sinni Charmian Brent og sonum sínum tveimur. Í París útvegaði hann sér ný skilríki auk þess sem hann gekkst undir lýtaaðgerðir til að breyta útliti sínu. Ronnie færði sig fljótt um set og fór ásamt fjölskyldu sinni til Ástralíu og settust að í smábæ sunnarlega á eyjunni. Skömmu eftir að þriðja barn hans fæddist barst honum nafnlaust bréf þar sem honum var tilkynnt að Interpol vissi hvar hann væri og að hann skyldi finna sér nýjan felustað. Ronnie flutti þá til Melbourne, bjó þar í nokkur ár og vann við margvísleg störf.
Árið 1969 sá Ronnie það í kvöldfréttum að lögreglan vissi um aðsetur hans í Melbourne og að hún hygðist brátt handsama hann. Hann flutti því enn og aftur og endaði í þetta skiptið í Rio de Janeiro í Brasilíu. Þar hóf Ronnie nýtt líf, kynntist dansaranum Raimundu de Castro og tókust með þeim ástir. Blaðamenn breska blaðsins Daily Express komust á snoðir um aðsetur Ronnies og í kjölfarið fór fyrrverandi hnefaleikameistarinn og rannsóknarlögreglumaður Scotland Yard, Jack Slipper, til Brasilíu í þeim tilgangi að handsama lestarræningjann. Á þessum tíma var Raimunda hinsvegar ólétt og brasilísk lög bönnuðu framsal einstaklings ef viðkomandi var foreldri brasilísks barns.
Ronnie gat því slakað á í Ríó og notið lífsins. Þar sem hann var þekktur glæpamaður vildi enginn ráða hann í vinnu en hann dó ekki ráðalaus. Ræninginn hélt grillveislur á heimili sínu í Ríó þar sem túristar gátu komið, notið máltíðar og hlustað á frásögn af lestarráninu mikla gegn smávægilegri þóknun. Ronnie barst það einnig til eyrna að Stanley Matthews, sem þá var þekktur knattspyrnumaður, væri í Ríó og bauð honum heim til sín. Stanley þáði það og saman drukku þeir te og spjölluðu um félagið Charlton Athletic sem var í miklu uppáhaldi hjá Ronnie. Ronnie Biggs-bolir, bollar og fleira var einnig selt í borginni og græddi hann ágætlega á því.
Ronnie var mikið í kastljósinu heima fyrir. Hann sótti meðal annars gleðskap í bresku herskipi sem lá við strendur Brasilíu án þess að vera handtekinn og söng inn á lög fyrir bresku pönksveitina Sex Pistols. Árið 1981 var Ronnie rænt af hópi fyrrverandi hermanna breska hersins. Þeir hugðust koma honum á stað þar sem hægt væri að framselja hann til Bretlands en bátur þeirra bilaði undan ströndum Barbados. Yfirvöld þar í landi stóðu ekki í neinum samningum við bresk yfirvöld um framsal og sendu Ronnie aftur til Brasilíu. Þess má geta að menn í síðari tíð hafa haldið því fram að ránið hafi verið skipulagt af breska ríkinu. Árið 1997 sótti breska ríkið aftur um framsal Ronnies en brasilísk yfirvöld neituðu þeirri bón og veittu ræningjanum landvistarleyfi í Brasilíu til æviloka.
Árið 2001, þá 72 ára, tilkynnti Ronnie breska blaðinu The Sun að hann ætlaði sér að snúa aftur heim til Bretlands, þrátt fyrir þá staðreynd að honum yrði þá strax stungið í fangelsi. Ronnie kom til Englands 7. maí sama ár og var samstundis handjárnaður og settur í fangelsi enda átti hann eftir að afplána 28 ár af dómi sínum. Heilsu Ronnies hrakaði fljótt og hann sótti margoft um að vera leystur úr haldi sökum veikinda. Hann var hinsvegar ekki leystur úr haldi fyrr en árið 2009 þegar hann varð orðinn svo veikur að hann gat hvorki gengið né talað og honum tilkynnt að hann gæti dáið frjáls maður.