Skortur á lyfjablöndunni sem notuð er við aftökur í Bandaríkjunum hefur haft þau áhrif að aftökum hefur fækkað í ár. Samkvæmt nýrri skýrslu hafa 39 fangar verið teknir af lífi það sem af er árinu í Bandaríkjunum.
Í frétt CNN kemur fram að þetta er í annað skiptið á tveimur áratugum þar sem aftökur eru færri en fjörtíu á einu ári. Í fyrra voru aftökurnar 49 talsins en ekki verða fleiri teknir af lífi í Bandaríkjunum í ár.
Höfundur skýrslunnar, Richard Dieter, sem stýrir upplýsingamiðstöð um aftökur í Bandaríkjunum, segir í samtali við CNN að fyrir 20 árum hafi aftökum verið að fjölga en nú fækki þeim jafnt og þétt.
Þau vandamál sem hafa komið upp við aftökur hafa gert það að verkum að þeim er oft frestað, stundum í áratugi. Líklegt þykir að fleiri ríki íhugi að hætta aftökum enda þær mjög kostnaðarsamar, að sögn Dieter.
Dauðarefsingu er beitt í 32 ríkjum Bandaríkjunum en einungis níu ríki hafa tekið dauðadæmda fanga af lífi með banvænni lyfjablöndu í ár. Þar af hafa sextán verið teknir af lífi í Texas og 7 í Flórída. Það þýðir að um 60% af aftökum ársins hafa verið í þessum tveimur ríkjum.
Yfirvöld í Texas leita nú logandi ljósi að nýrri lyfjablöndu til þess að nota við aftökur eftir að framleiðandinn, sem er evrópskur, neitaði bandarískum fangelsum um að nota lyf þeirra við aftökur. Meðal evrópsku framleiðendanna er danska lyfjafyrirtækið Lundbeck sem framleiðir pentobarbital. En lyfið er það algengasta við aftökur, annað hvort eitt og sér eða íblandað öðrum lyfjum, til að taka fanga af lífi.
Í ár var kona tekin af lífi í Bandaríkjunum, Kimberly McCarthy, en hún er fyrsta konan sem er tekin af lífi í landinu í þrjú ár. Hún var dæmd fyrir að myrða nágranna sinn. Í júní varð hún fangi númer 500 sem er tekinn af lífi í Texas frá árinu 1976 en það ár heimilaði hæstiréttur aftökur að nýju.
Alls hafa 1.359 manns verið teknir af lífi frá árinu 1976 í Bandaríkjunum og hefur margvíslegum aðferðum verið beitt við aftökurnar. Má þar nefna banvæna lyfjablöndu, gas, rafmagn, aftökusveitir og hengingar.