Rodman til N-Kóreu enn á ný

Bandaríski körfuboltakappinn Dennis Rodman er að fara enn og aftur til Norður-Kóreu. Nú er tilgangur ferðarinnar að þjálfa landsliðið í körfubolta en alls mun hann dvelja í fimm daga í landinu í þetta skiptið.

Rodman var síðast í Norður-Kóreu í september og segir hann að leiðtogi landsins, Kim Jong-un, og hann séu vinir að eilífu.

Bandaríska utanríkisráðuneytið segir að Rodman sé ekki á vegum bandarískra yfirvalda í N-Kóreu, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins. Einungis vika er síðan frændi Kim var tekinn af lífi.

Rodman ræddi við fjölmiðla á flugvellinum í Peking í Kína í morgun og sagði þeim að hann hefði ekkert með stjórnmál að gera. „Ég er bara að fara þangað til þess að spila nokkra körfuboltaleiki og skemmta mér,“ segir Rodman í viðtali við Reuters í morgun.

Hann mun einnig vera að skipuleggja vináttuleik í körfubolta á milli landsliðs N-Kóreu og hóps fyrrum NBA leikmanna þann 8. janúar, á afmælisdegi Kim.

Enginn jafn þekktur Bandaríkjamaður hefur hitt Kim frá því að hann tók við völdum af föður sínum árið 2011. Í september eyddi hann tíma með Kim og eiginkonu hans, Ri Sol-ju. Greindi hann frá því eftir ferðina að dóttir þeirra væri kölluð  Ju-ae.


Dennis Rodman á flugvellinum í Peking í morgun.
Dennis Rodman á flugvellinum í Peking í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert