Mikhail Kalashnikov látinn

Mikhail Kalashnikov mundar frumgerðina af AK-47 riffli árið 2007, þá …
Mikhail Kalashnikov mundar frumgerðina af AK-47 riffli árið 2007, þá 87 ára gamall. AFP

Mikhail Kalashnikov, hönnuður hins alræmda AK-47 riffils, er látinn 94 ára að aldri, að sögn rússneskra fjölmiðla. Hann bjó og starfaði síðustu æviárin í rússneska lýðveldinu Udmurtia, þar sem hann lést í dag.

Kalashnikov var álitin þjóðhetja í Sovétríkjunum og táknmynd herveldis Moskvu eftir að hönnun hans á rifflinum, sem við hann var kenndur, leit dagsins ljós.

Varð aldrei ríkur 

AK stendur fyrir Avtomat Kalashnikova eða sjálfvirkur Kalashnikov. Helsta ástæða vinsælda riffilsins var hversu einfaldur hann var í framleiðslu og viðhaldi í erfiðum aðstæðum. Hann varð fljótt mest notaði árásarriffill í heimi og helsta vopn á vígvöllum í Víetnam jafnt sem Afganistan, Alsír og Angóla.

En þrátt fyrir að hafa hannað eitt frægasta og mest notaða drápsvopn heims varð hann aldrei ríkur af því hugverki. Það mátti m.a. rekja til þess hve riffillinn er einfaldur því vopnaframleiðendur um allan heim hófu fljótt að smíða eftirlíkingar án þess að greiða fyrir einkaleyfið.

Einhvern tíma var haft eftir Kalashnikov sjálfum að hann hefði betur hannað sláttuvél.

Ekki með mannslíf á samviskunni

Kalashnikov sjálfur var fæddur árið 1919 inn í rússneska bændafjölskyldu, einn 18 systkina. Hann var boðaður í Rauða herinn þar sem hæfileikar hans fundu sér fljótt farveg í umbætum á vopnum og öðrum búnaði skriðdrekasveita hersins.

Hann hóf hönnun á rifflinum sem gerði hann frægan eftir að hann særðist í átökum við Þjóðverja árið 1941. Þýski herinn var á þeim tíma mun betur búinn vopnum en sá sovéski og markmið Kalashnikov var að jafna leikinn. 

Eftir nokkrar mismunandi útgáfur tókst að sníða af helstu galla og árið 1947 var riffillinn kominn fram eins og hann þekkist í dag. Nafnið varð fljótt stytt í AK-47.

Fram kemur á vef BBC að Kalashnikov hafi alla tíð hafnað að bera nokkra ábyrgð á því hvað sköpunarverk hans hefur leitt til margra dauðsfalla.

„Markmið mitt var að búa til vopn til að vernda landamæri móðurjarðar minnar,“ sagði hann. „Það er ekki mér að kenna að Kalashnikov riffillinn hafi verið notaður á mörgum átakasvæðum. Ég held að þar verði að kenna um stefnu viðkomandi landa, ekki hönnuðinum.“

Vladimir Putin forseti Rússlands virðir fyrir sér safna af Kalashnikov …
Vladimir Putin forseti Rússlands virðir fyrir sér safna af Kalashnikov rifflum í vopnaverksmiðju í Izhevsk í september 2013. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert