Elísabet drottning hefur náðað Alan Turing, dulmálssérfræðing og frumkvöðul í tölvunarfræði, en hann lést fyrir 59 árum. Mörgum hefur þótt að endalok hans séu svartur blettur í sögu Bretlands.
Turing tók þátt í að ráða dulmál Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni, en sú vinna var ómetanleg fyrir bandamenn í stríðinu. Turing gegndi lykilhlutverki í þessari vinnu, enda var hann að margra mati gæddur snilligáfu. Talið er að vinna Turing og samstarfsmanna hans hafi bjargað þúsundum mannslífa í seinni heimsstyrjöldinni.
Turing var samkynhneigður og hann var árið 1952 dæmdur fyrir skort á velsæmi. Samkynhneigð var á þessum tíma ólögleg í Bretlandi. Hann var í kjölfarið neyddur til að gangast undir hormónameðferð sem átti að útrýma löngun hans í kynlíf. Meðferðin hafði slæm áhrif á Turing og olli honum miklu þunglyndi. Hann framdi sjálfsvíg árið 1954.
Árið 2012 var þess minnst með margvíslegum hætti að 100 ár voru liðin frá fæðingu Turings. Hópur manna hefur síðustu ár barist fyrir því að hann yrði náðaður. Chris Grayling, dómsmálaráðherra Bretlands, mælti með náðun og nú hefur Elísabet drottning fallist á hana.
Hægt er að fræðast nánar um líf Turings á BBC.