Rafsígarettur tóku við af nikótínplástrunum. Tónlist Daft Punk gerði allt vitlaust á dansgólfunum og sjálfsmyndir tröllriðu öllu. Árið 2013 var ár sérkennilegra tískustrauma.
Málnefnd Oxford-orðabókarinnar ákvað að „selfie“ eða sjálfsmynd væri orð ársins. Það var einhvern veginn undirstrikað og staðfest á minningarathöfn um Nelson Mandela. Þá gerðu þrír þjóðarleiðtogar, Barack Obama Bandaríkjaforseti, David Cameron forsætisráðherra Bretlands og danski forsætisráðherrann Helle Thorning-Schmidt sér lítið fyrir og tóku sjálfsmynd af sér í stúlkunni á íþróttaleikvanginum í Jóhannesarborg þar sem athöfnin fór fram. Mynd náðist svo af þeim við þennan gjörning.
Önnur fræga sjálfsmynd er mynd ítalska geimfarans Luca Parmitano af sér í geimnum fyrir utan alþjóðlegu geimstöðina. Þá náði Frans páfi að koma sér í umræðuna meðal ungs fólks er hann leyfði unglingum að taka mynd af sér með honum í ágúst.
Oxford-orðabókin skilgreinir orðið sjálfsmynd (e. selfie) með þessum hætti: „Ljósmynd sem einhver tekur af sjálfum sér, yfirleitt á snjallsíma eða vefmyndavél, og birtir hana svo á samfélagsmiðli.“
Hún er sögð vera „alvöru en án tjörunnar, öskunnar, reyksins og annarra eiturefna.“ Rafsígarettan er nú það hjálpartæki sem flestir nota til að hætta að reykja. Rafsígarettur gefa frá sér gufu og eru með ljós í stað glóðar.
Frægt fólk var ekki lengi að taka við sér og taka sér rafsígarettu í munn. Þeirra á meðal eru breski söngvarinn Robbie Williams og leikarinn Robert Pattinson.
Líkt og venjulegar sígarettur innihalda rafsígarettur nikótín en sérfræðingar halda því fram að önnur eiturefni sé þar ekki að finna eða aðeins í örlitlum mæli.
Vinsældirnar eru miklar. Salan hefur tvöfaldast í Bandaríkjunum frá árinu 2008 og í ár er talið að hún nemi milljarði dala.
Sagnorðið „twerking“ eða að „tvinka“ eins og Bragi Valdimar Skúlason leggur til að við þýðum það á íslensku, var á allra vörum á árinu. Sú sem á heiðurinn af því er barnastjarnan Miley Cyrus sem otaði rassi sínum ítrekað að fólki. Mörgum þótti hún ganga of langt með þessum furðudansi sínum á MTV-tónlistarhátíðinni í ágúst. Eggjandi dansinn fékk einhverja foreldra til að grípa fyrir augu barna sinna sem sátu með poppskálina í fanginu að fylgjast með þessari fjölskylduskemmtun.
Oxford-orðabókin hefur samþykkt að taka þetta nýyrði inn í orðabók sína með þessari útskýringu: „Að dansa við vinsæla tónlist á kynferðislega örgrandi hátt með því að þrýsta mjöðmum sínum aftur.“
Talið er að dansinn sé upprunninn í bandaríska hip-hop heiminum en eigi einnig rætur sínar einnig að rekja til dansstaða í New Orleans.
Franska tónlistartvíeykið Daft Punk átti áhrifamikla endurkomu fram á tónlistarsviðið á þessu ári. Félagarnir Guy-Manuel de Homem-Christo og Thomas Bangalter gáfu út sína fjórðu plötu í maí, Random Access Memories. Platan seldist vel og fór á toppinn í Bandaríkjunum.
Fyrsta smáskífan, Get Lucky, náði í efstu sæti vinsældarlista í yfir þrjátíu löndum. Daft Punk er ekki þekkt fyrir að fara troðnar slóðir og ákvað að kynna plötuna fyrst í ástralska bænum Wee Waa. Íbúarnir eru 1.653 talsins og ætla má að hver einasti þeirra sé nú í aðdáendahópi sveitarinnar.
Mörg þúsund manns, margir hverjir með hina einkennandi hjálma á höfði, söfnuðust saman í þessum litla, afskekkta bæ, til að vera viðstaddir útgáfuna. Slátrarinn í bænum tók þátt af lífi og sál og bjó til Daft Pork-pylsur (Daft-svínapylsur).
„Raftónlist er búin að koma sér vel fyrir og mun ekki víkja einn sentímetra,“ sagði Bangalter við tímaritið Rolling Stone.
Hinn ávanabindandi netleikur Candy Crush Saga kom sá og sigraði í ár með sínum litríku sælgætismolum. Á hverjum degi er leikurinn spilaður um 700 milljón sinnum. Aðrir netleikir hafa einnig notið gríðarlegra vinsælda, s.s. spurningaleikur íslenska fyrirtækisins Plain Vanilla, QuizUp.
Talið er að þessar vinsældir netleikja eigi eftir að koma niður á sölu á annars konar tölvuleikjum.
Asískir samfélagsmiðlar sóttu verulega í sig veðrið á árinu. Eru þeir í harðri samkeppni við m.a. hina bandarísku miðla, s.s. Facebook og Skype.
Kínverski miðillinn WeChat og sá japanski, Line, er hægt að nota til að hringja ókeypis milli landa, senda skilaboð, myndir og stutt myndskeið. Þannig sameina þeir ýmsa kosti Facebook og Skype sem og skyndiskilaboðaappsins WhatsApp.
Notendur Line eru um 230 milljónir. 47 milljónir notenda eru í Japan og um 15 milljónir á Spáni. Eigendur miðilsins ætla sér að sigra Evrópu og sækja næst á Frakklands- og Ítalíumarkað.
En það sem heillar einna helst notendur Line umfram notendur annarra samfélagsmiðla er að þar er hægt að velja um að sýna tilfinningar sínar með mjög svo líflegum og frumlegum táknum.
Sömu sögu er reyndar að segja um kínverska miðillinn WeChat. Notendur geta valið úr mörgum skemmtilegum fígúrum til að segja hug sinn. Sum þessara tákna þarf að borga fyrir og er það m.a. sú leið sem bæði Line og WeChat nota til að fjármagna sig að hluta.
Búið er að þýða WeChat á 19 tungumál og eru notendurnir orðnir um 500 milljónir. Um 100 milljónir utan Kína nota þennan samfélagsmiðil.