Enginn starfsmanna þýska flugfélagsins Lufthansa á Charles de Gaulle-flugvellinum í París mætti til vinnu í morgun og báru allir við veikindum. Vegna þessa þurfti að fella niður flugferðir Lufthansa og hafði það áhrif á ferðalög hundraða farþega. Starfsmenn vildu með þessu mótmæla uppsögnum hjá fyrirtækinu.
Yfirmönnum hjá flugfélaginu tókst að fá einhverja starfsmenn til að mæta síðar í dag og voru flugferðir á áætlun síðdegis.
Lufthansa hefur boðað uppsagnir 3.500 starfsmanna, meðal annars í Frakklandi. Boðað hefur verið að enn fleiri starfsmenn leggi niður vinnu í næstu viku til að mótmæla uppsögnunum.